Lífið

Liverpool-treyjur rokseljast á Íslandi

Liverpool-treyjur seljast enn best í Jóa útherja og „Chicharito“ er vinsælastur þessa dagana hjá stuðningsmönnum United. fréttablaðið/stefán
Liverpool-treyjur seljast enn best í Jóa útherja og „Chicharito“ er vinsælastur þessa dagana hjá stuðningsmönnum United. fréttablaðið/stefán

Liverpool-treyjur halda áfram að seljast vel hér á landi þrátt fyrir arfaslakt gengi liðsins upp á síðkastið. „Salan hefur aldrei verið betri, þetta er voðalega skrítið,“ segir Viðar Valsson, starfsmaður verslunarinnar Jóa útherja sem sérhæfir sig í enskum fótboltatreyjum.

Sala á Chelsea-treyjum hefur dregist töluvert saman, sérstaklega síðan Eiður Smári Guðjohnsen hætti hjá liðinu. Aðspurður hvernig salan á Stoke-treyjum hefur verið segir Viðar: „Við tókum ekki sénsinn með Stoke. Við tókum sénsinn með Mónakó-treyjur og það floppaði alveg.“

Liverpool-treyjur hafa alltaf verið vinsælastar í versluninni. Í öðru sæti eru treyjur Manchester United. Hægt er að láta merkja treyjur með nöfnum leikmanna. Torres og Gerrard eru vinsælastir hjá Liverpool en upp á síðkastið hafa Meireles og Lucas komið sterkir inn. Joe Cole, sem kom til liðsins fyrir tímabilið, var gríðarvinsæll til að byrja með en er núna kominn út í kuldann hjá íslenskum „púlurum“. Hjá United er Javier „Chicharito“ Hernandez vinsælastur um þessar mundir, þrátt fyrir að „Chicharito“-merkingin sé meðal þeirra dýrustu í versluninni.

Við þetta má bæta að Tottenham-treyjur hafa sótt í sig veðrið undanfarið. „Litlu guttarnir eru að snúa sér þangað. Þetta er skemmtilegur fótbolta sem þeir spila og þarna eru stjörnur á borð við Bale og van der Vaart,“ segir Viðar. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.