Erlent

Herlög gengin í gildi í Barein

Mótmælendur í Manama Hörð átök brutust út í gær í höfuðborginni Manama.
fréttablaðið/AP
Mótmælendur í Manama Hörð átök brutust út í gær í höfuðborginni Manama. fréttablaðið/AP
Konungurinn í Barein hefur lýst yfir þriggja mánaða neyðarástandi í landinu. Jafnframt fær yfirmaður hersins víðtæk völd til að berja niður mótmæli, sem sjía-múslimar í landinu hafa verið í forystu fyrir undanfarnar vikur.

Á mánudag sendu Sádi-Arabar þúsund hermenn til Barein til að hjálpa stjórninni, sem einnig nýtur stuðnings Bandaríkjanna. Íransstjórn hefur harðlega mótmælt íhlutun Sádi-Araba.

Í Barein eru sjía-múslimar í minnihluta og telja sér mismunað af hálfu súnní-múslima, sem fara með öll völd í landinu.

Hætta er á að átökin í Barein, sem er lítil eyja úti af strönd Sádi-Arabíu á Persaflóa, snúist upp í víðtækari átök sjía-múslima gegn súnníum. Íbúar Sádi-Arabíu eru að mestu súnní-múslimar en í Íran, sem er handan flóans, búa einkum sjíar.

Hörð átök brutust út í Barein í gær. Hundruð mótmælenda eru sögð hafa særst, bæði af völdum barefla lögreglunnar og skotvopna hennar. Að minnsta kosti einn hermaður frá Sádi-Arabíu lést eftir að hafa orðið fyrir skoti úr byssu mótmælanda.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×