Innlent

Vilja koma repúblikönum frá völdum

Samstaða Mótmælendur í Wisconsin hafa ekki gefist upp þrátt fyrir að ríkisstjórinn hafi komið umdeildum lögum í gegn, heldur stefna að því að koma repúblikönum frá völdum.NordicPhotos/AFP
Samstaða Mótmælendur í Wisconsin hafa ekki gefist upp þrátt fyrir að ríkisstjórinn hafi komið umdeildum lögum í gegn, heldur stefna að því að koma repúblikönum frá völdum.NordicPhotos/AFP
Þrátt fyrir að Scott Walker, ríkisstjóri Wisconsin, hafi komið umdeildum lögum um samningsrétt í gegnum ríkisþingið fyrir helgi er málinu ekki lokið.

Verkalýðsfélög, demókratar og opinberir starfsmenn hyggjast nú koma Walker og stuðningsmönnum hans frá með því að krefjast nýrra kosninga um embætti þeirra með undirskriftasöfnun.

Walker tók við embættinu í upphafi árs og verður ekki hægt að krefjast kosninga um embætti hans fyrr en í janúar á næsta ári.

Deilan í Wisconsin hefur valdið miklum umræðum um stöðu og réttindi opinberra starfsmanna um gjörvöll Bandaríkin. Lögin umdeildu svipta stéttarfélög opinberra starfsmanna réttinum til að semja um annað en tímakaup, og þá aðeins í samræmi við þróun verðbólgu.

Þá þurfa starfsmenn að leggja sjálfir til meira af greiðslum í lífeyrissjóði og sjúkratryggingar, sem samsvarar um átta prósenta launalækkun.

Walker heldur því fram að þessar breytingar séu nauðsynlegar til að bregðast við miklum halla á fjárlögum ríkisins. Borgarar muni brátt átta sig á kostum breytinganna.- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×