Lífið

Að skapa er partur af því að vera til

Ágúst Borgþór Sverrisson. Fréttablaðið/GVA
Ágúst Borgþór Sverrisson. Fréttablaðið/GVA
Ágúst Borgþór Sverrisson hefur á undanförnum árum getið sér orð fyrir smásagnagerð. Nýlega sendi hann frá sér nýja nóvellu, Stolnar stundir, sem dregur dám af hans eigin lífi – og þó ekki.

Stolnar stundir fjallar um Þóri, þýðanda og fjölskyldumann sem meðfram vinnu- og heimilisskyldum situr á kaffihúsum og skrifar smásögur í laumi. Þegar ókunnug kona hringir í skakkt númer og eiginkona Þóris verður fyrir svörum, hefst hins vegar atburðarás þar sem friðsælu fjölskyldulífi er stefnt í hættu.

Ágúst Borgþór á ýmislegt sammerkt með Þóri. Hann er líka þýðandi og fjölskyldumaður, sem oft situr á kaffihúsum í miðbænum og skrifar skáldskap. Fjalla Stolnar stundir um hann sjálfan?

„Að einhverju leyti er þetta smá leikur," útskýrir Ágúst Borgþór. „Þegar ég var að skrifa þessa sögu rann fljótlega upp fyrir mér að ég var að skrifa um minn reynsluheim, það er heilmikill 101-bragur á þessu. Og í stað þess að reyna að fela það ákvað ég að að ganga alla leið með það. Það er því ýmislegt sem við Þórir eigum sammerkt, vinnustaðir okkar eru nákvæmlega eins og dætur okkar lituðu báðar á sér hárið."

Þess háttar atriði ráði hins vegar ekki úrslitum um hvernig fólki er.

„Þeir sem þekkja mig mjög vel taka líklega eftir að ég er að mörgu leyti mjög ólíkur þessum manni; hjónaband okkar er mjög ólíkt; hann byrjar að skrifa um fertugt og heldur því leyndu en ég byrjaði að blaðra um það þegar ég var sextán ára að ég ætlaði að verða rithöfundur. Það má því kannski túlka þetta sem dálitla pælingu um mörk einstaklinga; Þórir er alls ekki ég – en við komum úr sama reynsluheimi."

Ágúst Borgþór viðurkennir þó að ýmislegt í bókinni sé sjálfsævisögulegt, til dæmis glíman við að vera rithöfundur meðfram fullu starfi og fjölskyldulífi.

„Ég man eftir því þegar ég kom næstum því grenjandi heim af foreldrafundi þar sem var verið að skipuleggja tónleikaferðalag fyrir dóttur mína. Ég var að vinna á auglýsingastofu, sem hentaði ágætlega upp á skriftirnar að gera. Það sem setti strik í reikninginn var hins vegar fjölskyldulífið; í stað þess að verja kvöldunum í skriftir þurfti ég að selja klósettpappír. Á þeim tímapunkti rann það upp fyrir mér að ég væri orðinn maður sem fer í fýlu yfir að dóttir hans kemst í tónleikaferðalag!"

Ágúst Borgþór hefur hingað til einbeitt sér að smásögum og nóvellum, að ógleymdu blogginu, sem líta má á sem hluta af höfundaverki hans. Hvers vegna höfðar þetta form svona sterkt til hans?

„Það má kannski rekja til þess þegar ég fór að ná valdi á því að skrifa eitthvað sem var þess virði að birta," segir hann. „Lestraráhugi minn varð mun beinskeyttari fyrir vikið; ég leitaðist aðallega við að lesa það sem gat komið mér að gagni við skriftir og oftar en ekki voru það smásögur. Bandarísk smásagnagerð stóð í miklum blóma á 9. áratugnum og það má segja að formið hafi náð algjörum tökum á mér. En nú finnst mér ég vera reiðubúinn til að skrifa lengri verk jafnt sem smásögur og geri ráð fyrir að næsta verk verði skáldsaga upp á 250 síður eða svo. En ég er rétt byrjaður á henni."

Auk þess að skrifa hefur Ágúst Borgþór kennt á smásagnanámskeiðum, sem hann segir bæði hafa styrkt sig sem höfund og opnað augu sín fyrir því hversu margir fást við skriftir í raun og veru.

„Það eru ótrúlega margir að skrifa. Og þetta virðist vera tilneigingin þegar maður lítur heilt yfir listgreinarnar. Á tímum þar sem ríkir velmegun og menntunarstigið er hátt sér maður að það verður partur af mannlegu hlutskipti að vera skapandi."

bergsteinn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.