Lífið

Sigrún Lilja einn höfunda sjálfshjálparbókar

Sigrún Lilja Guðjónsdóttir verður einn af höfundum bandarísku bókarinnar The Next Big Thing en þar fjalla frumkvöðlar, aðallega bandarískir, um hvernig þeir hafa komið hugmyndum sínum í framkvæmd.

Sigrún Lilja er á forsíðu kápunnar og virðist aðalstjarna ritsins ef marka má hana. Sigrún Lilja er ekki eini Íslendingurinn sem skrifar í bókina því Jón Bjarnason viðskiptaþjálfi skrifar einnig kafla í bókina.

Sigrún Lilja hefur vakið töluverða athygli fyrir hönnun sína undir merkjum Gyðju og nú síðast ilmvatnið sitt, EFJ, sem unnið er úr vatni frá Eyjafjallajökli.

„Ég var í sambandi við systur­fyrirtæki Celebrity Press sem gefur út bókina. Var að kanna möguleika á samstarfi á öðrum vettvangi. Þetta barst síðan bara á milli fyrirtækjanna og þeir hjá útgáfufyrirtækinu buðu mér að vera með í þessari bók. Þeim fannst ég hafa farið óhefðbundnar leiðir og fannst forvitnilegt hvernig ég hafði byggt fyrirtækið upp,“ segir Sigrún í samtali við Fréttablaðið en Celebrity Press gefur aðallega út fyrirtækjavænar bækur og bækur um hvernig fólk getur náð langt í sinni atvinnugrein.

Sigrún segir að hennar helsta ráð fyrir nýtt ár sé að fólk skapi sér tækifærin sjálf. „Fram undan gætu verið mestu og bestu tímarnir fyrir skapandi greinar og ég held að það sé mikilvægast fyrir fólki að leyfa sköpunargáfunni að ráða för. Fólk á að vera frumlegt og leita nýrra leiða og muna að tækifærin koma ekki upp í hendurnar á manni.“ Bókin sem Sigrún og Jón skrifa í verður fáanleg í völdum verslunum á Íslandi síðar á árinu sem og Amazon.com. -fgg





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.