Erlent

Hörð viðbrögð almennings

Casey Anthony ásamt lögmanni sínum í gær.
nordicphotos/AFP
Casey Anthony ásamt lögmanni sínum í gær. nordicphotos/AFP
Casey Anthony á sér fáa stuðningsmenn í Bandaríkjunum þótt hún hafi verið sýknuð af ákæru um að hafa myrt barn sitt. Hópur fólks var viðstaddur þegar hún gekk í gær frjáls manneskja út úr fangelsinu í Orlando í Flórída, þar sem hún hefur dvalist í nærri þrjú ár meðan mál hennar var til meðferðar hjá dómstólum.

Hún fékk fjögurra ára dóm fyrir að segja ósatt, en var látin laus vegna góðrar hegðunar í fangelsinu. Almenningur í Bandaríkjunum hefur fylgst mjög með málinu og eru margir afar hneykslaðir á sýknudómnum. Hrópað var að henni þegar hún gekk út úr fangelsinu í gær, meðal annars var hún kölluð barnamorðingi.

Hún lét engan vita þegar tveggja ára dóttir hennar hvarf sumarið 2008, heldur fór að heiman frá foreldrum sínum og sökkti sér í skemmtanalíf vikum saman áður en móðir hennar tilkynnti lögreglu um grun sinn um að hún hafi myrt barnið. Lík barnsins fannst hálfu ári síðar í skógi skammt frá heimili foreldra hennar.

Óvíst er hvað hún tekur sér nú fyrir hendur, en foreldrar hennar hafa ekkert talað við hana síðan hún var handtekin. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×