Enski boltinn

Arsenal búið að losa sig við Denílson - lánaður til Sao Paulo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Denílson.
Denílson. Mynd/AFP
Denílson hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Arsenal í bili því Arsene Wenger og félagar hafa ákveðið að lána hann til brasilíska félagsins Sao Paulo. Arsenal er jafnframt við það að ganga frá samningi við Joel Campbell, stórefnilegan framherja frá Kosta Ríka.

Denílson sem er 23 ára gamall miðjumaður lék áður með Sao Paulo liðinu en hefur gengið illa að vinna sér fast sæti í Arsenal-liðinu.

„Ég mun spila í Brasilíu á næsta tímabili. Þetta er gott tækifæri fyrir mig að spila aðalliðsfótbolta. Ég er samt leiður yfir því að yfirgefa Arsenal því þar á ég marga góða vini sem hafa alltaf stutt við bakið á mér," sagði Denílson.

Joel Campbell er 19 ára sóknarmaður sem hefur spilað með Deportivo Saprissa í heimalandinu. Hann þarf að sækja um atvinnuleyfi í Englandi en Arsenal er að öðru leiti búið að ganga frá kaupum á leikmanninum fyrir 900 þúsund pund.

Joel Campbell hefur skorað 2 mörk í 6 A-landsleikjum fyrir Kosta Ríka en hann er búinn að skora 8 mörk í 9 leikjum með 20 ára liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×