Erlent

Telja að David Cameron hafi sýnt dómgreindarskort

Leiðarar margra breskra blaða í morgun fjalla um afsögn lögreglustjóra Lundúna og segja afsögnina varpa fram spurningu um dómgreindarskort hjá David Cameron forsætisráðherra Bretlands.

Í leiðurunum kemur fram að afsögn lögreglustjórans sé hættumerki fyrir forsætisráðherrann. Í blaðinu Guardian sem öðrum fremur hefur ljóstað upp um hlerunarhneykslið hjá News of the World segir að með afsögn lögreglustjórans sé forsætisráðherrann kominn í sigtið. Málið kalli á spurningar um dómgreind David Cameron.

Í leiðara Daily Telegraph, sem er hægrisinnað blað, segir að erfiðir tímar séu framundan fyrir forsætisráðherrann. Afsögn lögreglustjórans hafi aukið þrýstingnn á Cameron en ekki dregið úr honum. Telegraph segir að Cameron hafi gert afgerandi mistök með því að ráða Andy Coulson sem ráðgjafa sinn en Coulson er fyrrum yfirmaður hjá News of the World.

Blaðið The Times sem er í eigu Rupert Murdoch segir að það sé ógnvekjandi að hneykslið hafi nú náð inn í raðir lögreglunnar og stjórnmálanna.

Cameron er nú í opinberri heimsókn í Afríku en hefur ákveðið að stytta þá heimsókn um tvo daga vegna News of the World málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×