Viðskipti erlent

Leggur til að skuldaþakið verði afnumið

Matsfyrirtækið Moody´s leggur til að Bandaríkjamenn afnemi skuldaþak sitt. Slíkt myndi draga úr óvissunni hjá þeim sem fjárfesta í bandarískum skuldabréfum.

Í frétt um málið á Reuters segir að Bandaríkin séu eitt af fáum löndum í heiminum sem hafa löggjöf um hvert hámark opinberra skulda megi vera. Þetta skapi reglulega óvissu um getu bandarískra stjórnvalda til að mæta skuldabindingum sínum.

Áður fyrr var skuldaþak Bandaríkjanna einfaldlega hækkað þegar það náði hámarki án þess að pólitískar deilur yrðu um slíkt. Nú logar hinsvegar allt í deildum milli þingmanna innbyrðis og milli þingmanna og Bandaríkjaforseta um skuldaþakið. Því hefur Moody´s sett AAA lánshæfiseinkunn Bandaríkjanna á athugunarlista með neikvæðum horfum.

Moody´s leggur til að Bandaríkjamenn fari svipaða leið og Sílebúar en Síle er eitt traustasta land Suður-Ameríku þegar kemur að opinberum fjármálum. Þar er umfang skulda hins opinbera takmarkað með fjárlögum. Moody´s segir að slíkt hafi gefist vel í Síle.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×