Erlent

Brýn þörf fyrir fjárhagsaðstoð

Mæður með ungabörn leita aðstoðar í Turkana-héraði. Nordicphotos/AFP
Mæður með ungabörn leita aðstoðar í Turkana-héraði. Nordicphotos/AFP
Tony Lake, yfirmaður Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, segir að ástandið á þurrkasvæðunum í Afríku muni versna á næstu mánuðum. Fólk hefur ekki mat og engin uppskera er væntanleg til að bæta úr matarskortinum. Hann segir að nú skipti öllu máli að útvega fjölskyldum aðstoð.

„Allt þetta fólk er á tæpasta vaði,“ segir hann, og tekur fram að ástandið nú megi rekja til nokkurra samverkandi þátta: þurrka, hærra verðs á matvælum og eldsneyti, og langvinn stríðsátök í Sómalíu.

Þurrkarnir á þessum slóðum eru þeir verstu sem komið hafa í áratugi. Þúsundir manna hafa flúið ástandið í Sómalíu, þar sem ástandið er verst, yfir landamærin til Kenía og Eþíópíu, þar sem ástandið er einnig slæmt fyrir.

Uppskerubrestur hefur nú verið nokkur ár í röð vegna þurrkanna og búfénaði hefur fækkað verulega af sömu ástæðu. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×