Innlent

Játar að hafa banað barnsmóður sinni

Lögreglan var með mikinn viðbúnað á vettvangi í gærkvöldi.
Lögreglan var með mikinn viðbúnað á vettvangi í gærkvöldi. MYND/Anton
Ungur maður játaði fyrir lögreglu í gærkvöldi að hafa orðið barnsmóður sinni að bana. Hann hafði komið akandi að Landspítalanum í Fossvogi á áttunda tímanum með lík hennar í skotti bíls síns.

Maðurinn, sem er 25 ára, fæddur árið 1986, vísaði starfsfólki spítalans á líkið. Starfsfólkið kallaði umsvifalaust til lögreglu sem hafði mikinn viðbúnað, girti af bíl mannsins, steingráan Mitsubishi Galant, og rannsakaði vettvanginn gaumgæfilega áður en líkið var flutt á brott.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru litlir áverkar á líki stúlkunnar, sem var tvítug, fædd 1990. Læknum og lögreglu hafði í gærkvöldi ekki tekist að greina banamein hennar. Ljóst þykir þó að stúlkan hafi verið látin í nokkrar klukkustundir þegar maðurinn kom með hana á spítalann.

Maðurinn var handtekinn og fluttur á lögreglustöð. Þar sætti hann ströngum yfirheyrslum í gærkvöldi. Þegar blaðið fór í prentun lá ekki að fullu fyrir hvar stúlkunni var ráðinn bani eða nákvæmlega með hvaða hætti andlát hennar bar að.

Tveir ungir menn komu á vettvang skömmu eftir að lögregla girti svæðið af. Að sögn vitna á staðnum sögðust mennirnir vera bræður hins handtekna og að þeir hefðu fengið frá honum símtal um tveimur klukkustundum fyrr.

Maðurinn og stúlkan áttu saman tveggja ára son.- sh, jss


Tengdar fréttir

Þekkti fórnarlambið

Maðurinn sem játaði að hafa orðið konu að bana í kvöld þekkti fórnarlamb sitt. Maðurinn, sem er 25 ára gamall og búsettur á höfuðborgarsvæðinu, ók bifreið sinni að Landspítalanum í Fossvogi á áttunda tímanum í kvöld.

Karlmaður á þrítugsaldri í haldi

Að minnsta kosti einn karlmaður er í haldi hjá lögreglunni vegna líks sem fannst í farangursgeymslu bifreiðar fyrr í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×