Lífið

Björn Bragi og Þórunn Antonía taka við af Audda og Sveppa

Björn Bragi Arnarsson og Þórunn Antonía Magnúsdóttir. Fréttablaðið/GVA
Björn Bragi Arnarsson og Þórunn Antonía Magnúsdóttir. Fréttablaðið/GVA
Björn Bragi Arnarsson, ritstjóri Monitor, og Þórunn Antonía Magnúsdóttir úr Steindanum okkar hafa verið ráðin til að stjórna vikulegum sjónvarpsþætti á Stöð 2. Þátturinn á að koma í staðinn fyrir Audda og Sveppa, sem hefur verið á dagskrá á föstudagskvöldum síðan í janúar 2009.

„Við ætlum að gera þrusugóðan þátt og skemmtilegan," segir Björn Bragi en þættirnir eiga að hefjast í haust.

Um hálftíma langan skemmtiþátt verður að ræða fyrir ungt fólk á öllum aldri.

„Þetta er algjör draumur. Þetta er mjög skemmtilegt og krefjandi verkefni."

Björn Bragi er ekki alveg ókunnur sjónvarpsforminu, hann hefur verið með Monitor-sjónvarpsþætti á netinu sem notið hafa töluverðra vinsælda.

„Þetta hefur verið fín reynsla og það hefur verið ótrúlega skemmtilegur tími að byggja þetta vikublað upp síðan það kom í mars í fyrra. Monitor TV hefur einnig gengið rosalega vel en þetta verður klárlega skref upp á við og meira krefjandi en áður," segir hann um nýja þáttinn á Stöð 2. Einnig stendur til að aukaefni verði á Vísi.

Björn Bragi, sem er 26 ára, mun starfa áfram hjá Monitor þangað til eftirmaður hans verður fundinn. Vinna við sjónvarpsþáttinn hefst síðan í sumar.

Þórunn Antonía hefur leikið í grínþáttunum Steindinn okkar og hefur því góða reynslu úr sjónvarpi. Hún er að vonum spennt fyrir nýja þættinum.

„Ég hlakka mikið til að taka þátt í þessu verkefni og mér líst rosalega vel á það."

Aðspurð segir hún að vissulega sé það draumur að stjórna eigin sjónvarpsþætti.

„Þetta er rosalega skemmtilegt starf. Það er í þessum listageira sem mig hefur langað að halda mig inni í. Það verður gaman að sjá hvað verður úr þessu."

Þórunn er einnig frambærileg söngkona sem hefur m.a. unnið með bandaríska tónlistarmanninum Beck. Nýtt lag frá henni og popparanum Berndsen kemur einmitt út í dag og nefnist það Out of Touch.

„Þetta er sumarslagari. Ég var búin að semja eitthvert kassagítarvæl en ákvað að það væri ekki stemningin og ákvað að breyta mér í poppstjörnu í smá stund í anda Kylie Minogue."

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×