Innlent

Strætóbílstjóri talaði í símann undir stýri

Erla Hlynsdóttir skrifar
Farsímanotkun við akstur, án handfrjálss búnaðar, er ekki einungis lögbrot heldur einnig brot á starfsreglum vagnstjóra
Farsímanotkun við akstur, án handfrjálss búnaðar, er ekki einungis lögbrot heldur einnig brot á starfsreglum vagnstjóra
Forsvarsmenn Strætó bs. hafa veitt vagnstjóra hjá fyrirtækinu tiltal vegna farsímanotkunar við akstur eftir að ljósmynd barst af bílstjóranum þar sem hann sást tala í símann á sama tíma og hann ók strætisvagni.

Farþegi tók myndina og kom henni til  fréttastofu sem síðan sendi hana áleiðis til Strætó bs. Upplýsingar frá ljósmyndara um tíma og staðsetningu vagns þegar myndin var tekin leiddi til þess að starfsfólk Strætó bs. gat haft uppi á vagnstjóranum.

Gert er ráð fyrir að vagnstjórum verði sent tilkynning á allra næstu dögum þar sem ítrekaðar eru upplýsingar um starfsreglur, þar á meðal að ólöglegt sé að tala í síma við akstur.

„Lögbrot og brot á starfsreglum vagnstjóra eru litin alvarlegum augum hjá Strætó bs. og farsímanotkun í akstri án handfrjáls búnaðar er ekki einungis lögbrot heldur er það einnig brot á starfsreglum vagnstjóra að tala í síma í akstri - með eða án handfrjáls búnaðar," segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs.

Brot á lögum og starfsreglum fara eftir ákveðnum ferlum innan fyrirtækisins og kunna að leiða til áminningar og ef til vill síðar til brottreksturs ef svo ber undir. „Þetta er allt skráð," segir Reynir.

Sama mynd, óklippt
Hann leggur áherslu á að fyrirtækið reyni eftir fremsta megni að vinna með sínu starfsfólki og aðstoða það við að bæta ráð sitt þegar þörf krefur, frekar en að segja upp góði fólki sem verður á að gera mistök í starfi. Ef um endurtekin brot sé að ræða er þó engin þolinmæði fyrir því.

„Flestir taka ábendingum vel og brjóta ekki af sér aftur," segir Reynir.

Þó hann geti ekki gefið upplýsingar um einstaka starfsmenn segir Reynir aðspurður að sá sem á myndinni sést tala í símann við akstur er ekki þekktur hjá fyrirtækinu nema af góðu einu. Reynir bindur því vonir við að eitt tiltal sé allt sem til þurfi.

Reynir segir ekki algengt að ábendingar berist vegna þess að vagnstjórar tali í síma á meðan á akstri stendur, en það komi þó fyrir. Hann beinir því til viðskiptavina Strætó bs. að hafa sjálfir samband við fyrirtækið ef þeir vilja koma með athugasemdir, og segir þar fullum trúnaði heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×