Innlent

Vopnað rán í Breiðholti: Hann var með hnífinn á lofti

Mynd tengist frétt ekki beint. Úr safni.
Mynd tengist frétt ekki beint. Úr safni.
„Hann hefur fengið einhverja hundrað kalla upp úr þessu," segir Gunnar Gunnarsson, eigandi Söluturnins Hraunberg í Breiðholti. Grímuklæddur maður ógnaði starfsfólki með hnífi og heimtaði peninga úr afgreiðslukassa um klukkan sjö í kvöld.

Þegar starfsstúlka hafði látið manninn fá nokkra hundrað kalla hvarf hann út í myrkrið. „Hann réðst ekki á neinn og slasaði engan. Hann var með hnífinn hérna á lofti og heimtaði peninga úr kassanum," segir Gunnar en sjoppan var full af fólki þegar ránið átti sér stað.

Hann segir að stúlkurnar sem voru að vinna hafi verið mjög brugðið og fengið áfallahjálp. „Það er mikið sjokk að lenda í svona ógnun, en þær vissu hvernig þær ættu að bregðast við því við höfum lent í svona áður. Þær gerðu hárrétt."

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er ránið í rannsókn en Gunnar segir að ekki sé búið að finna manninn. „Sem betur fer fór þetta betur en það hefði getað farið," segir Gunnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×