Innlent

Skólameistarar bíða eftir fundi

Skólameistarar, þar á meðal Hjalti Jón Sveinsson í Verkmenntaskóla Akureyrar, bíða eftir frekari útlistunum á hugmyndum yfirvalda.fréttablaðið/heiða.is
Skólameistarar, þar á meðal Hjalti Jón Sveinsson í Verkmenntaskóla Akureyrar, bíða eftir frekari útlistunum á hugmyndum yfirvalda.fréttablaðið/heiða.is
„Mér vitandi hefur ekkert verið rætt við stjórnendur framhaldsskóla um þessi mál. Við vitum bara að við eigum að skera niður kostnað um 5,5 prósent á þessu ári og búumst við öðru eins á því næsta. Ég sé ekki hvernig þetta á að vera mögulegt miðað við fjárveitingar til framhaldsskólanna,“ segir Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri.

 

Fram kom í Fréttablaðinu á laugardag að öllum umsækjendum í framhaldsskóla, sem eru 25 ára og yngri og uppfylla inngönguskilyrði, verði tryggð skólavist næsta haust samkvæmt drögum að aðgerðapakka sem ríkisstjórnin hefur kynnt fyrir aðilum vinnumarkaðarins.

 

Hjalti Jón segir sjálfsagt að reyna að finna úrræði fyrir þá úr þessum aldurshópi sem hingað til hafa ekki komist inn í framhaldsskóla. „Það verður fróðlegt að sjá með hvaða hætti yfirvöld hyggjast hafa samráð við skólana um þessi mál. Eftir rúma viku funda skólameistarar með menntamálaráðherra á samstarfsnefndarfundi. Ég reikna með að við fáum frekari upplýsingar þá.“

 

Þrír aðrir skólameistarar sem Fréttablaðið ræddi við, þau Ingibjörg Guðmundsdóttir í Kvennaskólanum í Reykjavík, Jón B. Stefánsson í Tækniskólanum og Már Vilhjálmsson í Menntaskólanum við Sund, eru sammála um að fagna beri þessum fyrirætlunum yfirvalda. Þau bíði eftir frekari upplýsingum um ráðahaginn frá yfirvöldum.- kg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×