Innlent

Óttast aukna leynd með nýjum lögum

Formaður Blaðamannafélags Íslands segir tímaskekkju að Stjórnarráðið reyni nú eftir hrunið að auka leyndarhyggju með nýju frumvarpi um breytingar á upplýsingalögum. FRéttablaðið/Stefán
Formaður Blaðamannafélags Íslands segir tímaskekkju að Stjórnarráðið reyni nú eftir hrunið að auka leyndarhyggju með nýju frumvarpi um breytingar á upplýsingalögum. FRéttablaðið/Stefán
„Þetta er afturför því þarna er verið að fjölga en ekki fækka undanþágum frá því sem er í lögunum frá 1996,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, um frumvarp um breytingar á lögum um upplýsingamál.

 

„Það er tímaskekkja núna þegar menn ættu að draga lærdóma af hruninu að auka leyndarhyggjuna í stað þess að sníða agnúana af lögum sem að mörgu leyti hafa reynst vel,“ bætir Hjálmar við.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra mælti fyrir frumvarpinu sem nú er til meðferðar hjá allsherjarnefnd Alþingis. Hjálmar ásamt Sigurði Má Jónssyni, varaformanni BÍ, segja í umsögn fyrir hönd félagsins til nefndarinnar að lagasmiðirnir virðist ekki hafa trú á eigin tillögum.

 

Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu segir að sterk rök hnígi að því að „einmitt upplýsingar af þessu tagi eigi ríkt erindi við almenning“ en síðan að niðurstaðan hafi „engu að síður“ orðið sú að leggja til lögfestingu viðkomandi reglu. „Hér verður ekki séð að hugur fylgi máli og eðlilegt að beina löggjafanum inn á þá braut sem hugur og hjarta segja honum!“ segir Blaðamannafélagið.

 

Meðal þess sem BÍ gerir athugasemdir við er nýtt ákvæði um að undanskilja frá aðgangi almennings gögn sem ráðherrar afla frá sérfróðum aðilum til að undirbúa lagafrumvörp.

 

„Hér má spyrja hvort eðlilegt sé að leynd hvíli yfir hvaða gögn löggjafinn notast við,“ segir í umsögn Hjálmars og Sigurðar.

Þá kemur fram að BÍ telji alltof víðtæka heimild felast í frumvarpinu „til þess að loka inni vinnugögn“. Þannig geti stjórnvöld mjög takmarkað upplýsingastreymi.

 

„Í því sambandi má vitna til nýlegs blaðamáls, Árbótarmálsins, þar sem mikilvægar upplýsingar um afgreiðslu og málsmeðferð komu fram í tölvupóstssamskiptum. Ekki verður annað séð en að þarna sé verið að loka á afhendingu slíkra gagna,“ er ein ábendingin frá Hjálmari og Sigurði. Árbótarmálið sem Fréttablaðið sagði frá fjallaði um hvernig ráðherra og þingmenn beittu sér á bak við tjöldin í máli sem ekki var á þeirra forræði.

 

Síðan er ítrekað í umsögn BÍ að fráleitt sé í ljósi reynslunnar að undanþágum frá lögunum sé fjölgað: „Of mikið upplýsingastreymi hefur ekki staðið vandaðri stjórnsýslu hér á landi fyrir þrifum. Þvert á móti.“ gar@frettabladid.is


Tengdar fréttir

Foringjaræði treyst og vald fært frá Alþingi

Með áformuðum breytingum á lögum um Stjórnarráð Íslands er foringjaræði fest í sessi og vald fært frá Alþingi, þvert gegn margradda gagnrýni undanfarin misseri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×