Innlent

Markmiðið miðstöðvarinnar að útrýma ofbeldi

forsvarsmenn miðstöðvarinnar Sigrún Sigurðardóttir forstöðumaður, 
Ágúst Þór Árnason lögfræðingur og dr. Sigríður Halldórsdóttir prófessor við stofnun samtakanna.mynd/háskólinn á akureyri
forsvarsmenn miðstöðvarinnar Sigrún Sigurðardóttir forstöðumaður, Ágúst Þór Árnason lögfræðingur og dr. Sigríður Halldórsdóttir prófessor við stofnun samtakanna.mynd/háskólinn á akureyri
Rannsóknarmiðstöð um ofbeldi var opnuð í Háskólanum á Akureyri á mánudag. Markmiðið með miðstöðinni er að útrýma ofbeldi.

Rannsóknarmiðstöðin verður í samvinnu við samsvarandi stofnanir og félög, bæði hér á landi og erlendis, þar með talið UNICEF. Staðið verður fyrir málþingum og ráðstefnum til að breiða út þekkingu á ofbeldi og afleiðingum þess. Einnig verður meðferð í boði fyrir þolendur ofbeldis.

Dr. Sigríður Halldórsdóttir, prófessor á heilbrigðisvísindasviði við Háskólann á Akureyri, er stofnandi miðstöðvarinnar. Hún segist hafa fengið hugmyndina í janúar þegar hún var búin að liggja yfir rannsóknarniðurstöðum um þolendur ofbeldis og sjá svart á hvítu hversu alvarlegar afleiðingar það hefur. Sigríður segir það gerlegt að ná markmiði samtakanna, að útrýma ofbeldi alveg, en langt sé í land.

„Maður á að láta sig dreyma stórt. Og við látum okkur dreyma um ofbeldislaust Ísland sem allra fyrst,“ segir Sigríður.

„Við höfum öll óbeit á ofbeldi og okkur finnst það öllum ógeðslegt. En þetta er sums staðar mjög falið og ég legg ríka áherslu á að ég lít svo á að allt ofbeldi sé mannréttindabrot.“

Miðstöðin hefur keypt lénið www.ofbeldi.is og þar verða hinar ýmsu upplýsingar aðgengilegar er varða ofbeldi og afleiðingar þess.

„Við viljum að allir þeir sem eru að fræðast um ofbeldi og afleiðingar þess geti nálgast upplýsingar um það á einum stað,“ segir Sigríður.

Allir starfsmenn miðstöðvarinnar eru sjálfboðaliðar, en meðlimir í stjórninni eru fjórtán talsins, frá hinum ýmsu starfssviðum samfélagsins.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×