Innlent

Ætluðu til Túnis en enduðu á Íslandi

Þýskt jeppafólk Ætluðu til Túnis og enduðu á Kaldadal. Mynd/Manfred Hessel
Þýskt jeppafólk Ætluðu til Túnis og enduðu á Kaldadal. Mynd/Manfred Hessel
„Í stað þess að keyra um í sól og 30 stiga hita í Túnis eru ferðamennirnir hér í snjó og þriggja stiga hita,“ sagði Jón Baldur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins ISAK, staddur á Kaldadal í gær. Hann var þar fararstjóri í ellefu bíla flota og bílstjórarnir voru allir þýskir ferðamenn. Jón Baldur leigir út sérútbúna Land-Rover Defender og aðrir ellefu bílar frá honum fóru um Kjöl í gær og að Langjökli, með hluta af sama hópi.

„Þetta er stærsti hópur sem til landsins hefur komið til að aka á breyttum jeppum, um 70 manns,“ sagði Jón Baldur. „Þeir höfðu áformað Túnisferð þegar þar brast á með óeirðum svo þeir ventu sínu kvæði í kross og komu til Íslands.“

Að sögn Jóns Baldurs er mesti snjórinn á Kaldadal á veginum því hann er niðurgrafinn.

„Þetta er búið að vera skemmtilegt at. Menn voru að festast og draga hver annan og reyndar búnir að affelga eitt dekk. Svo hafa þeir þurft að hleypa lofti úr niður í sex pund. Þetta eru allt dekkjasölumenn og þarna opnaðist þeim ný vídd í dekkjabransanum.“ - gun




Fleiri fréttir

Sjá meira


×