Innlent

Þurfa ekki samþykki félagsins

Páll Harðarson
Páll Harðarson
„Gjaldeyrishöftin setja okkur í þessa stöðu. Okkur fannst ekki hægt að gera annað. Þetta var það eina sem við gátum gert í því umhverfi sem við búum við,“ segir Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.

Vika er liðin síðan samþykkt var á aðalfundi stoðtækjaframleiðandans Össurar að taka félagið af hlutabréfamarkaði hér. Þau eru jafnframt skráð á markað í Kaupmannahöfn. Síðasti viðskiptadagur bréfanna er föstudagurinn 25. mars næstkomandi. Kauphöllin tilkynnti hins vegar í gær að þrátt fyrir þetta verði hlutabréf félagsins tekin aftur til viðskipta eftir helgina og muni fjárfestar geta bæði keypt og selt hlutabréf Össurar með sama hætti og áður í íslenskum krónum.

Kauphöllin beitir fyrir sig samevrópsku regluverki um kauphallir sem innleitt var hér árið 2007 og heimilar að taka verðbréf til viðskipta án samþykkis útgefanda hafi verðbréfin verið tekin til viðskipta á öðrum verðbréfamarkaði innan evrópska efnahagssvæðisins. Ekki liggur fyrir hvort félagið verði áfram í úrvalsvísitölunni.

„Það er grundvallarréttur hluthafa að geta bæði keypt og selt hlutabréfin. Við vorum í þeirri stöðu að hefði kauphöllin ekki tekið bréfin á ný til viðskipta hefðu íslenskir hluthafar aðeins getað selt bréfin,“ segir Páll.

- jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×