Erlent

Hamfarir skekja Japan

Guðsteinn Bjarnason, Óli Kristján Ármannsson, Þorgils Jónsson og og Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifa
Jarðskjálftinn og flóðbylgjan sem kom á eftir lagði stóra hluta landsins í rúst og því er gríðarleg uppbygging framundan.
Jarðskjálftinn og flóðbylgjan sem kom á eftir lagði stóra hluta landsins í rúst og því er gríðarleg uppbygging framundan. MYND/AP
„Maður verður býsna lítill í sér þegar maður stendur frammi fyrir svona kröftum,“ sagði Stefán Lárus Stefánsson, sendiherra Íslands í Japan, í samtali við Fréttablaðið eftir að gríðaröflugur jarðskjálfti reið yfir landið.

Talið er að á annað þúsund manns hafi látið lífið í jarðskjálftanum og ógnarmikilli flóðbylgju sem fylgdi honum. Flóðið eirði engu þar sem það var sem öflugast, í borginni Sendai og nágrenni hennar. Tuga þúsunda er enn saknað.

Hætta skapaðist við kjarnorkuver um 300 kílómetra norður af Tókýó, þar sem yfirvöld, í samstarfi við bandaríska herliðið í landinu, kepptust við að halda kjarnakljúfi gangandi. Mikið reið á að halda kælikerfi kjarnakljúfsins starfandi til að koma í veg fyrir mengunarslys.

Alls voru 55 Íslendingar í Japan þegar skjálftinn reið yfir, samkvæmt lista utanríkisráðuneytisins. Þegar blaðið fór í prentun var búið að hafa samband við flesta og var enginn þeirra í hættu.

Skjálftinn var 8,9 stig á Richterkvarða og átti upptök sín skammt út af austurströnd landsins.

Vísindamenn segja að þetta sé sjöundi öflugasti jarðskjálfti sögunnar og var hann nærri 8.000 sinnum kröftugri en sá sem skók Christchurch í Nýja Sjálandi á dögunum.

Fjölmargir eftirskjálftar riðu yfir landið í nótt, sá öflugasti var 6,5 á Richterkvarða.

Sjá síður 4, 6 & 8 í Fréttablaðinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×