Innlent

Stórfyrirtæki tóku upp auglýsingar á Íslandi

Bankaauglýsing fyrir Citibank var tekin upp í Bláa lóninu fyrir skömmu.
Bankaauglýsing fyrir Citibank var tekin upp í Bláa lóninu fyrir skömmu.
„Þetta er auðvitað afar gleðilegt í þessu árferði og á þessum árstíma," segir Einar Sveinn Þórðarson hjá framleiðslufyrirtækinu Pegasus.

Auglýsingar fyrir tvö bandarísk stórfyrirtæki, tyggjóframleiðandann Wrigley og bankann Citibank, voru nýverið teknar upp hér á landi af bandarísku fyrirtækjunum MJZ og RSA í samvinnu við Pegasus. Þær verða frumsýndar vestanhafs á næstu vikum.

Auglýsingin fyrir Wrigley var tekin upp á Kjalvegi við Kleifarvatn en Citibank í Bláa lóninu. Tökur á síðarnefndu auglýsingunni áttu upphaflega að fara fram í Dauðahafinu en vegna ástandsins á því svæði þótti það ekki heppileg staðsetning. Þá varð Bláa lónið fyrir valinu. Tvær íslenskar karl- og kvenfyrirsætur leika í auglýsingunni ásamt bandarískri konu.

Leikstjóri auglýsingarinnar var Jake Scott, sonur hins fræga leikstjóra Ridley Scott sem á að baki myndir á borð við Alien og Gladiator. Christopher Soos var kvikmyndatökustjórinn í báðum verkefnum. Hann þykir afar frambærilegur og til dæmis sá hann um tökur á síðustu kvikmynd Jake Scott, Welcome to the Rileys, með Kristen Stewart, James Gandolfini og Óskarsverðlaunahafanum Melissu Leo í helstu hlutverkum.

„Þeir eru báðir mjög eftirsóttir og flottir leikstjórar," segir Einar Sveinn um Scott og Dante Ariola, sem leikstýrði Wrigley-auglýsingunni. Hann hefur gert auglýsingar fyrir Adidas, Levi"s og Nike. Að sögn Einars voru þeir ofboðslega ánægðir með dvölina á Íslandi. „Þeir vilja finna fleiri ástæður til að koma hingað. Það er auðvit-að besta auglýsingin fyrir okkur þegar menn vilja koma aftur. Þeir hrósuðu öllum deildunum í tökunum alveg í hástert."

Auglýsingarnar verða sýndar um öll Bandaríkin og fá því gríðarlegt áhorf. „Þessi vörumerki eru ansi stöndug og auglýsa stórt. Við viljum bara fá meira af þessu til Íslands," segir Einar. „Það er búið að vera heilmikið af fyrirspurnum í gangi og það er ekkert eins og fólk hafi gleymt Íslandi við þetta eldgos, heldur frekar hitt. Það virðist vera að koma í ljós."

freyr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×