Innlent

Suðurnesjamenn áhyggjufullir

Suðurnesjamenn segja ríkisstjórnina halda aftur af framþróun orkuiðnaðar á Íslandi. Fréttablaðið/GVA
Suðurnesjamenn segja ríkisstjórnina halda aftur af framþróun orkuiðnaðar á Íslandi. Fréttablaðið/GVA
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra minntist ekki á álver í Helguvík þegar hún taldi upp fyrirhugaðar stórframkvæmdir hér á landi á Alþingi í vikunni. Vakti ræða Jóhönnu áhyggjur á Suðurnesjum.

Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði, og Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, sendu frá sér ályktun í gær, þar sem þeir lýstu furðu sinni á ummælum forsætisráðherra. Þeir segja álver í Helguvík vera stærstu og þjóðhagslega mikilvægustu framkvæmdina sem nú stendur fyrir dyrum.

„Framkvæmdir við álver í Helguvík sem forsætisráðherra minnist ekki á skila um 8-10.000 ársverkum á byggingartíma og skapa yfir 2.000 varanleg störf, á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu,“ segir í ályktun bæjarstjóranna.

Þeir benda á að Alþingi hefur þegar samþykkt að styðja uppbyggingu álversins með fjárfestingarsamningi sem skuldbindi ríkisstjórnina til að styðja við verkefnið.

Í ræðu sinni á þriðjudag taldi forsætisráðherra upp stórar framkvæmdir á döfinni hér á landi og sagði viðbúið að fljótlega myndu skapast 2.200 til 2.300 ársverk, og í framhaldinu 500 til 600 varanleg störf. Nefndi Jóhanna í því samhengi stækkun álversins í Straumsvík, Búðarhálsvirkjun, kísilmálmverksmiðju í Helguvík, hreinkísilverksmiðju í Grindavík og natríumklóratverksmiðju á Grundartanga. - mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×