Innlent

Helmingi minna fé eytt í snjómokstur í Reykjavík

mokstur í grafarvogi Mokstursþjónusta hefur dregist saman um helming í Reykjavík á síðustu árum. fréttablaðið/pjetur
mokstur í grafarvogi Mokstursþjónusta hefur dregist saman um helming í Reykjavík á síðustu árum. fréttablaðið/pjetur
Reykjavíkurborg hefur eytt um 1,2 milljörðum króna í snjómokstur og aðra vetrartengda þjónustu á árunum 2008 til 2010. Veturinn 2008 kostaði þjónustan borgina um 500 milljónir króna. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands var óvenjumikill snjór það árið og var hann víða til trafala við samgöngur.

Útgjöld við mokstur og annað því tengdu hafa verið minnkuð um helming síðan árið 2008. Heildarkostnaður við þjónustuna síðasta vetur var 280 milljónir og 375 milljónir veturinn 2009. Það sem af er vetrinum í ár, hefur borgin eytt tæpum 130 milljónum í mokstur og er talið ólíklegt að sú tala muni hækka mikið úr þessu. Er þetta fjórðungur af þeim kostnaði sem borgin varði í þjónustuna árið 2008.

Guðbjartur Sigfússon, yfirverkfræðingur hjá Reykjavíkurborg, segir að þrátt fyrir mikla skerðingu í fjárveitingum til moksturs þá hafi það ekki bitnað mikið á þjónustu við borgarbúa.

„Það hefur ekki borið mikið á kvörtunum. Við reynum að sinna þessu eftir því sem þörf er á,“ segir Guðbjartur. „Svo er það ekki fjárveitingin sem ræður alltaf, heldur er það veðráttan sem skiptir öllu máli.“

Akureyrarbær eyddi 65 milljónum króna í snjómokstur árið 2008. Heildarkostnaður við mokstur í bænum síðustu fjóra vetur hefur kostað 252 milljónir króna. Mokstur í desember einum í fyrra kostaði um 20 milljónir.

Kostnaður Akureyrarbæjar við snjómokstur hefur verið frá 52 milljónum og upp í 72 milljónir hvert ár frá vetrinum árið 2007, en mestu var eytt í fyrra sé miðað við síðustu ár. Ástæðan fyrir auknum kostnaði er sögð einföld: Veðurfar.

„Það var bara miklu meiri snjór,“ segir Helgi Már Pálsson, bæjartæknifræðingur hjá Akureyrarbæ. „Ég held að hér sé mjög vel mokað og er nokkuð viss um að þjónustustigið sé nokkuð hátt. En það eru auðvitað meira en 17 þúsund aðrir sérfræðingar í bænum sem eru allir ósammála mér.“

Samkvæmt Veðurstofunni voru 9 alhvítir dagar á Akureyri síðasta vetur.sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×