Innlent

Austin Mini-smábíllinn í útrýmingarhættu á Íslandi

alveg að hverfa Aðeins sjö Austin Mini-smábílar eru eftir á götum Íslands. Bílunum hefur fækkað um 36 prósent síðustu tíu ár.
alveg að hverfa Aðeins sjö Austin Mini-smábílar eru eftir á götum Íslands. Bílunum hefur fækkað um 36 prósent síðustu tíu ár.
Austin Mini er eflaust einn sérkennilegasti smábíll sem framleiddur hefur verið. Hann naut talsverðra vinsælda á árum áður, en á nú undir högg að sækja og er smátt og smátt að hverfa af götum landsins.

„Þetta eru klassískir bílar og þeir eru eftirsóttir vegna þess að það er ekki til mikið af þeim,“ segir Einar Jónsson, sem á Austin Mini í félagi við Gunnar bróður sinn.

Austin Mini-smábíllinn er í útrýmingarhættu á Íslandi. Aðeins sjö slíkir bílar eru skráðir á götuna í dag samkvæmt upplýsingum frá Umferðarstofu, en árið 2000 voru þeir ellefu. Fækkunin síðasta áratug var því 36 prósent.

Austin Mini er einn frægasti smábíll heims, en framleiðslan á honum hófst árið 1959. Vinsældir Austin Mini jukust á sjöunda áratugnum í kjölfarið á því að tónlistar- og kvikmyndastjörnur létu sjá sig á bílnum. Margir muna eflaust eftir herra Bean, persónu Rowans Atkinson, en hann lét aldrei sjá sig á öðruvísi bíl en Austin Mini.

Bræðurnir Einar og Gunnar Jónssynir eru að selja Austin Mini árgerð 1988 á vefsíðunni minitilsolu.tk. Einar telur að dýrt viðhald kunni að spila inn í vaxandi óvinsældir þessa fræga smábíls. „Maður þarf að eyða milljón, tveim í að gera Mini upp,“ segir hann. „Ef hann er eitthvað smá bilaður er alltaf eitthvað annað sem bilar, kannski eftir ár eða tvö ár.“

Einar ítrekar að skemmtilegri bíll sé vandfundinn og játar að Austin Mini sé bíll með sál. Bróðir hans keypti bílinn fyrir tæpum sjö árum og Einar keypti svo hluta í honum. Saman ætluðu þeir að gera bílinn upp, en fundu því miður ekki tíma í það. Eftir að þeir byrjuðu að auglýsa bílinn hafa nokkrir áhugasamir kaupendur haft samband. „En ekkert voðalega margir,“ segir Einar. „Það er einn búinn að skoða og nokkrir búnir að gera tilboð, en ekkert nógu gott.“

atlifannar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×