Innlent

Leyfum börnum að vera börn

Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) á Íslandi.
Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) á Íslandi.
„Mikið af flóttafólki í Líbíu er frá Sómalíu og öðrum nágrannaríkjum. Þrjú hundruð þúsund flóttamenn eru nú komnir aftur á vergang, þar af er helmingur þeirra börn,“ segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) á Íslandi. Óttast er að fjöldi flóttafólks í Líbíu eigi eftir að aukast mjög á næstu vikum.

Barnahjálpin hefur ýtt úr vör fjársöfnun til stuðnings börnum á átakasvæðum í Líbíu og á hamfarasvæðum í Japan.

Í Líbíu snýr aðstoð Barnahjálparinnar að því að vernda börn gegn ofbeldi og misnotkun, sjá til þess að þau hafi aðgang að nauðsynlegri heilsugæslu og hreinu vatni auk þess sem setja eigi upp farandskóla.

Í Japan hefur fjöldi barna og fjölskyldur þeirra hvorki aðgang að hreinu vatni né viðunandi hreinlætisaðstöðu. Barnahjálpin í Japan hefur komið til hjálpar með dreifingu á neyðargögnum fyrir börn á hamfarasvæðum. Reynt verður að koma skólastarfi fljótt í gang í báðum löndum.

Stefán segir mikilvægt að reyna allt til að koma í veg fyrir að hörmungarnar í löndunum báðum komi niður á börnum. „Það skiptir máli að leyfa börnum að vera börn,“ segir hann. Hægt er að styðja við málefnið á www.unicef.is.

- jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×