Innlent

Selja rafjeppa fyrir 4,5 milljarða

NLE hefur samið við framleiðendur um að selja 150 E-Range jeppa á næstu fjórum árum.
NLE hefur samið við framleiðendur um að selja 150 E-Range jeppa á næstu fjórum árum.
Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Northern Lights Energy (NLE) hefur samið við breska fyrirtækið Liberty Electric Cars um að selja rafknúna jeppa af gerðinni Liberty E-Range á Norðurlöndunum. NLE mun selja 150 bíla á næstu fjórum árum, en samningurinn er að upphæð 24 milljóna punda, sem jafngildir tæplega 4,5 milljörðum króna.

Sighvatur Lárusson, framkvæmdastjóri NLE, segir í samtali við Fréttablaðið að um sé að ræða Range Rover-bifreiðar sem séu útbúnar drifbúnaði frá Liberty. „Við stefnum á að fá sýningarbíl hingað til lands fyrir 17. júní og héðan munum við fara til Noregs og Færeyja,“ segir Sighvatur.

Hann segir aðspurður að hann búist ekki við mikilli sölu hér á landi. „Ég held ekki að það sé mikil sala á Range Rover á Íslandi á næstu árum. Við viljum endilega selja bíla hérna, en við gerum ekki ráð fyrir að það verði stórsala.“ Sighvatur bætir því við að rafbílar séu sífellt að ryðja sér betur til rúms og mikill áhugi sé hér á landi. NLE sé þegar með umboð fyrir nokkur rafbílafyrirtæki.

„Til dæmis Smith, AMP, REVA og fleiri sem við munum kynna síðar.“- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×