Innlent

Smokkurinn alltof dýr fyrir ungmenni

Aðgengi íslenskra ungmenna að getnaðarvörnum þarf að vera greiðara til að vinna gegn hárri tíðni kynsjúkdóma að mati UNICEF. Smokkurinn sé of dýr fyrir þau að kaupa. Samtökin segja að stjórnvöld ættu að vinna markvisst gegn neikvæðum áhrifum kláms á kynheilbrigði ungmenna.

Í nýútkominni skýrslu sem unnin var fyrir Unicef um málefni barna eru teknar saman rannsóknir og tölfræði um kynhegðun og kynheilbrigði ungmenna. Þar kemur fram að um það bil tvö þúsund Íslendingar smitast árlega af Klamydíu, þar af flestir á aldrinum 15-25 ára, en síðustu ár hefur tæplega fjórðungur þeirra sem smitast verið 19 ára og yngri. Í fyrra hafði samtals verið tilkynnt um 257 tilfelli af HIV sýkingu á Íslandi en þar af höfðu 62 greinst með alnæmi og 38 látist af völdum sjúkdómsins. Af þessum 257 tilfellum hafa 10 greinst fyrir tvítugsaldur.  

En áhyggjuefnið snýr líka að ótímabærum þungunum hjá ungum stúlkum. Árlega eru framkvæmdar tæplega þúsund fóstureyðingar á Íslandi. Af þeim eru yfirleitt 20-25 % gerðar á stúlkum sem eru 15-19 ára.   Í rannsókn frá 2006 sögðust tvö og hálft prósent þeirra ungmenna sem tóku þátt  hafa farið í fóstureyðingu að minnsta kosti einu sinni.

Þá hefur sala á neyðarpillunni sem tekin er eftir samfarir aukist umtalsvert frá því leyfi var gefið fyrir sölu hennar. Árin 2007-2009 seldust sex til átta þúsund pakkningar.

Í skýrslu UNICEF er talið að smokkurinn sé svo dýr að það sé ein af ástæðum þess að ungmenni stunda oft óvarðar samfarir.  Smokkar sem teljast eina örugga vörnin gegn kynsjúkdómum eru flokkaðir sem lúxusvara og því lagður á þá 25,5 prósent skattur. Í skýrslunni kemur fram að beiðni frá sóttvarnarráði um aðgengi ungmenna að ókeypis smokkum hefur legið á borði heilbrigðsráðherra frá 2004.    






Fleiri fréttir

Sjá meira


×