Innlent

Efast um umhverfisuppeldið

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra varpaði þeirri spurningu fram á aðalfundi Landverndar á fimmtudag hvort það væri uppeldislegt atriði að umgengni við landið er ábótavant, eins og nýleg dæmi sönnuðu. Svandís sagði umgengnina við landið endurspeglast í því sem fólk skildi eftir sig á víðavangi, frágangi sorps, efnamenguðum jarðvegi, óhreinu vatni og því sem við slepptum út í andrúmsloftið.

Hún staldraði sérstaklega við mengun frá sorpbrennslustöðvum og frá einstökum verksmiðjum sem hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum frá áramótum. „Þegar slík mál koma upp er rétt að staldra við og spyrja hvað veldur. Hvers vegna umgengni okkar við landið er svo ábótavant sem raun ber vitni. Er það af hreinni græðgi eða kemur hugsunarleysi eða þekkingarleysi við sögu? Hvað stýrir því að við erum á stundum skeytingarlaus og of værukær þegar kemur að okkar eigin umhverfi? Er eitthvað að viðhorfi okkar til náttúrunnar – eitthvað í uppeldinu sem skortir?" spurði umhverfisráðherra aðalfundargesti.

Hún bætti við að auðvitað væri uppeldi einstaklingsbundið og rangt að alhæfa um uppeldi heillar þjóðar í þessum efnum; skólarnir gegndu mikilvægu hlutverki og á síðustu árum hefði margt breyst til batnaðar.- shá

Í Fréttablaðinu í dag var sagt að Jóhanna Sigurðardóttir hefði varpað spurningunni fram á aðalfundinum. Beðist er velvirðingar á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×