Innlent

Glerbytna fyrir gesti í Þingvallaþjóðgarði

Gissur Baldursson
Gissur Baldursson
Skipstjórarnir Gissur Baldursson og Snæbjörn Ólafsson hafa sótt um leyfi til að sigla með farþega á Þingvallavatni á rafknúnum bát með útsýnisbotni úr gleri.

Sérstaklega er óskað eftir heimild til siglinga í landi þjóðgarðsins við norðanvert Þingvallavatn. „Vatnið er auðvitað afburða tært. Við höfum hitt marga sem segja okkur að þarna sé mikið að sjá, sérstaklega á þessum slóðum. Bæði er landslagið ofan í vatninu alveg stórfenglegt með sínum djúpu gjám og síðan er fjölskrúðugt lífríki í vatninu," segir Gissur, sem lofar hljóðlátri siglingu sem ekki spilli kyrrðinni í friðlandinu.

Smíða og hanna á rafbátinn hér landi og segir Gissur áætlað að hann taki um þrjátíu farþega. Gissur telur það styrkja umsókn þeirra Snæbjörns að í núgildandi stefnu fyrir þjóðgarðinn segir að áhersla „verði lögð á að kynna lífríki vatnsins fyrir gestum á áhugaverðan hátt með því að bjóða þeim að skyggnast undir yfirborðið með ýmsum ráðum".

Þá segir Gissur mikils vert að gera tilraunir með rafbát. „Af því að dæma sem við höfum kannað geta menn nýtt þann möguleika miklu betur. Til dæmis gætu hvalaskoðunarbátar og bátar í slíkum styttri ferðum allir verið rafknúnir," segir hann.

Umsókn Gissurar og Snæbjörns var tekin fyrir í Þingvallanefnd fyrir tveimur mánuðum. Nefndin fól þá Ólafi Haraldssyni þjóðgarðsverði að kanna málið nánar, meðal annars með tilliti til þess hvar báturinn gæti haft lægi og hvert aðstöðugjaldið ætti að vera. Einnig þyrfti að greiða úr rafmagnsmálum, en ekkert rafmagn er í Vatnskoti þar sem Gissur og Snæbjörn hafa helst hug á að vera.

Ekki náðist í Ólaf, sem er í orlofi en Gissur segir þjóðgarðsvörðinn afar jákvæðan gagnvart verkefninu og þegar hafa gert umsögn sína. Hins vegar hafi Þingvallanefnd ekki fundað aftur.

„Það hafa allir tekið mjög vel í þetta. Það eina sem okkur er vantar er leyfið og þá getum við hafist handa við að ljúka endanlegri hönnun bátsins og látið smíða hann," segir Gissur, sem kveðst vonast til að geta hafi siglingarnar sumarið 2012. gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×