Innlent

Friðar flugturn í óþökk flugyfirvalda

Gamli flugturninn Auk flugmálayfirvalda hefur umhverfissvið Reykjavíkurborgar lagt til að flugturninn verði fjarlægður í þágu flugöryggis en húsafriðunarnefnd er á öðru máli.
Fréttablaðið/Teitur
Gamli flugturninn Auk flugmálayfirvalda hefur umhverfissvið Reykjavíkurborgar lagt til að flugturninn verði fjarlægður í þágu flugöryggis en húsafriðunarnefnd er á öðru máli. Fréttablaðið/Teitur
Húsafriðunarnefnd leggur til við Katrínu Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, að hún friði gamla flugturninn á Reykjavíkurflugvelli. Flugmálastjórn og Isavia, sem rekur flugvöllinn, leggjast eindregið gegn því að turninn standi áfram á sínum stað.

„Ástæða þess að Isavia leggst gegn þessu er að flugturninn er hindrun í flugbrautaröryggissvæði og því frávik frá öryggisreglum að hafa hann áfram á þeim stað þar sem hann er nú,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Isavia.

Hjördís undirstrikar að Isavia leggist eingöngu gegn friðun turnsins á núverandi stað. „Isavia gerir hins vegar ekki athugasemd við að turninn verði fjarlægður og enduruppbyggður á öðrum heppilegri stað í nágrenni flugvallarins eða annars staðar,“ segir hún.

Meðal ábendinga sem Húsafriðunarnefnd hefur fengið frá flugmálayfirvöldum er að jafnvel þótt turninn yrði friðaður og hann gerður upp myndi almenningur ekki geta notið hans. Ástæðan sé sú að byggingin sé á skilgreindu öryggissvæði sem óviðkomandi hafi ekki aðgang að.

Húsafriðunarnefnd segir hins vegar að óumdeilt sé að í aðalskipulagi Reykjavíkur fyrir árin 2001 til 2024 sé ákvæði um brottflutning flugvallarstarfsemi úr Vatnsmýrinni. Nefndinni beri „að stuðla að varðveislu byggingararfs þjóðarinnar og meta hvaða hús er rétt að friða hverju sinni og gera um það tillögur til mennta- og menningarmálaráðherra“.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×