Innlent

Umhverfisátak í aprílmánuði

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra setti átakið af stað í ráðhúsinu í gær.	Fréttablaðið/valli
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra setti átakið af stað í ráðhúsinu í gær. Fréttablaðið/valli
Umhverfisátakið Grænn apríl, sem stendur allan aprílmánuð, var sett af stað í gær. Tilgangur átaksins er að vekja Íslendinga til umhugsunar um umhverfismál og kynna grænar og umhverfisvænar vörur og þjónustu.

„Hugmyndin að baki átakinu er að nota aprílmánuð til þess að skoða stöðuna í umhverfismálum hér á landi. Svona mánaðarátak er einstakt á heimsvísu en 22. apríl er alþjóðlegur dagur umhverfisins,“ segir Valgerður Matthíasdóttir, meðlimur í samtökunum Grænum apríl sem nýverið voru stofnuð. „Við hér á Íslandi erum að mörgu leyti langt á eftir nágrannaþjóðum okkar hvað varðar meðvitund um umhverfismál. Við erum svo vön því að vera í svo mikilli nálægð við hreina og villta náttúru og vatnið okkar er svo gott. En við erum mjög slæm í öllu sem tengist úrgangi og rusli sem fylgir nútímaþjóðfélagi.“

Samtökin Grænn apríl hafa það að markmiði að hvetja ríkisstjórnina, sveitarstjórnir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga til að vinna saman að því að gera apríl að grænum mánuði. Munu samtökin á næstu vikum standa fyrir fjölda fjölbreytilegra viðburða er varða umhverfismál.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×