Innlent

Borðtennisprestur á pall með syni sínum

Æfa í laumi Feðgarnir Séra Hjörtur Magni Jóhannsson og Magnús Jóhann Hjartarson grípa gjarnan í borðtennisspaðann á kvöldin en þeir urðu báðir Íslandsmeistarar í borðtennis á dögunum. Fréttablaðið/daníel
Æfa í laumi Feðgarnir Séra Hjörtur Magni Jóhannsson og Magnús Jóhann Hjartarson grípa gjarnan í borðtennisspaðann á kvöldin en þeir urðu báðir Íslandsmeistarar í borðtennis á dögunum. Fréttablaðið/daníel
Feðgarnir séra Hjörtur Magni Jóhannsson 52 ára og Magnús Jóhann Hjartarson 12 ára, státa báðir af Íslandsmeistaratitli í einliðaleik í borðtennis. Magnús Jóhann, nemandi í Fossvogsskóla, varð íslandsmeistari í flokki 12 til 13 ára um síðustu helgi, auk þess sem hann varð í þriðja sæti í tvíliðaleik. Faðir hans, Fríkirkjupresturinn Hjörtur Magni, vann síðan titilinn Íslandsmeistari í flokki karla 50 til 59 ára á laugardaginn, og landaði einnig þriðja sætinu í tvíliðaleik.

„Ég æfði borðtennis á mínum yngri árum og átti að heita í landsliði unglinga og karla. Ég hafði reyndar varla snert spaðann síðustu tíu ár en þetta er eins og að læra að hjóla, maður gleymir þessu ekki,“ segir séra Hjörtur Magni en hann vann einnig Íslandsmeistaratitil í einliðaleik karla 40 til 50 ára fyrir tíu árum.

 

Hann segir sigur þeirra feðga hafa komið skemmtilega á óvart. Hæfileikarnir liggi greinilega í blóðinu. „Strákurinn stóð sig frábærlega vel en hann hefur ekki æft nema í eitt og hálft ár. Enda var það var stoltur og tilfinningaþrunginn faðir sem fylgdist með af áhorfendapöllunum,“ segir hann og hlær. „Við erum reyndar með borðtennisborð hér í kjallaranum og æfum okkur í laumi,“ bætir hann við.

 

Magnús Jóhann tekur undir með pabba sínum um það að hæfileikarnir hljóti að liggja í genunum. Þegar hann er spurður hvor þeirra feðga sé betri borðtennisspilari svarar hann hógvær: „Ég veit það nú ekki. Ég vinn reyndar aðeins oftar. Pabbi er ekkert of tapsár en það er auðvitað leiðinlegt að tapa,“

 

Magnús segist staðráðinn í að halda áfram að æfa borðtennis, þetta sé skemmtileg íþrótt og faðir hans bætir við að íþróttin leyni á sér. „Ólíkt því sem margir halda þá reynir borðtennis á snerpu, einbeitingu og þol. Þetta getur tekið virkilega á.“ heida@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×