Fótbolti

Verða stjörnurnar með á Bernabeu í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo.
Real Madrid og Tottenham mætast í kvöld í fyrri leik sínum í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar og fyrir leikinn eru menn með miklar vangaveltur um hvort aðalstjörnur liðanna verða með í kvöld. Cristiano Ronaldo hjá Real Madrid og Gareth Bale hjá Tottenham eru báðir að glíma við tognun aftan í læri og stjórarnir Jose Mourinho og Harry Redknapp taka áhættu með því að nota þá í kvöld.

"Það hefur ekki verið svona stór leikur á Santiago Bernabeu í langan tíma og það er eðlilegt að hugsa ekki um neitt annað en þennan leik," sagði Jose Mourinho á blaðamannafundi fyrir leikinn, þar sem hann velti vöngum um að fara gegn ráðum læknaliðs síns og tefla Ronaldo fram í leiknum.

Þegar er ljóst að Karim Benzema verður ekki með og þá eru þeir Angel di Maria og Marcelo í kapphlaupi eins og Ronaldo um að verða leikfærir fyrir kvöldið.

Harry Redknapp, stjóri Tottenham, þarf einnig að taka stóra ákvörðun um hvað hann ætlar að gera með Gareth Bale, sem er eins og Ronaldo að ná sér eftir tognun aftan í læri. Bale hefur lítið spilað frá því í janúar því áður var hann meiddur í baki.

"Bale er frábær íþróttamaður og ég horfði á hann hlaupa á föstudaginn þegar hann sagðist vera aðeins á 70 prósenta hraða en leit út fyrir að geta flogið. Hann leit út eins og Carl Lewis," sagði Harry Redknapp.

Bale er staðráðinn í að spila og viss um að hann mæti Ronaldo í kvöld. "Ég mun biðja hann um treyjuna eftir leikinn. Ég hef alltaf fylgst með honum og reynt að læra af honum. Við erum líkir leikmenn hvað varðar kraft og hraða. Ég sé hann gera hluti og reyni að leika þá eftir," sagði Bale.

Hinn leikur kvöldsins er á milli Evrópumeistara Inter Milan og Schalke.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×