Erlent

Send heim í fjárlagadeilu

Harry Reid og John Boehner. Leiðtogarnir á Bandaríkjaþingi hafa verið á stöðugum fundum undanfarið til að leysa deilu um fjárlög ársins. Hluti ríkisstarfsmanna verður mögulega sendur heim vegna fjárskorts á næstu dögum.
Harry Reid og John Boehner. Leiðtogarnir á Bandaríkjaþingi hafa verið á stöðugum fundum undanfarið til að leysa deilu um fjárlög ársins. Hluti ríkisstarfsmanna verður mögulega sendur heim vegna fjárskorts á næstu dögum. Mynd/AP
Leiðtogar demókrata og repúblikana á Bandaríkjaþingi hafa fram á síðustu stundu ekki náð samkomulagi um fjárlög ársins.

 

Þeir hafa því verið á stöðugum fundum síðustu daga, því takist ekki samkomulag áður en fjárheimildir ríkissjóðs renna út, sem er í dag, þá yrðu margir ríkisstarfsmenn sendir heim og þjónusta ríkisins myndi versna til muna, þótt ekki muni starfsemi ríkisins stöðvast alveg.

 

„Nú þegar efnahagslífið er enn að komast út úr óvenju djúpri kreppu, þá væri það óafsakanlegt – að teknu tilliti til þess hve litlu munar á milli flokkanna þegar að tölum kemur – að við gætum ekki gert þetta,“ sagði Barack Obama Bandaríkjaforseta seint á miðvikudagskvöld.

 

Repúblikanar vilja helst 73 milljarða dala niðurskurð í ríkisfjármálum, en hafa þó fallist á 40 milljarða. Demókratar vilja hins vegar ekki skera meira niður en 33 milljarða dala. Það sem á milli ber eru því sjö milljarðar dala.

 

Síðast kom álíka staða upp í lok árs 1995 þar sem Bill Clinton forseti neitaði að skrifa undir fjárlög frá repúblikönum á þingi. Þá voru ríkisstarfsmenn, aðrir en þeir sem sinna bráðnauðsynlegum störfum, sendir heim fyrst í eina viku í nóvember og svo í þrjár vikur í desember og fram yfir áramót.

 

Málið þótti koma Clinton afar vel og telja stjórnmálaskýrendur að þar hafi hann unnið sig upp í áliti þjóðarinnar í aðdraganda kosninga sama ár.

- gb, þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×