Innlent

Vilja rannsaka blý í börnum

Sérfræðingar hjá Háskóla Íslands og Matís reyna um þessar mundir að fjármagna rannsókn á allt að 120 börnum vegna mengunar frá sorpbrennslum. Rannsóknin snýr meðal annars að blýi og díoxíni.
Sérfræðingar hjá Háskóla Íslands og Matís reyna um þessar mundir að fjármagna rannsókn á allt að 120 börnum vegna mengunar frá sorpbrennslum. Rannsóknin snýr meðal annars að blýi og díoxíni. Mynd/Stefán Karlsson
Verið er að leggja drög að nokkuð umfangsmikilli rannsókn þar sem leitað verður að þungmálmum í hári barna á Ísafirði, í Vestmannaeyjum og á Kirkjubæjarklaustri.

Hugmyndin að rannsókninni er tilkomin vegna mengunar frá sorpbrennslum í sveitarfélögunum þremur.

 

Ætlunin er að skoða skólabörn á aldrinum fimm til tíu ára, allt að þrjátíu börn á hverjum stað auk viðmiðunarhóps, segir Þórhallur Ingi Halldórsson, lektor við heilbrigðisvísindasvið HÍ, sem vinnur að fjármögnun rannsóknarinnar ásamt Hrönn Jörundsdóttur, verkefnastjóra hjá Matís, en hugmyndin er þeirra.

 

Þórhallur segir að erlendis séu slíkar rannsóknir yfirleitt settar af stað þegar áþekk mál koma upp.

 

En af hverju börn á þessum aldri? „Börn eru mun viðkvæmari en fullorðnir fyrir þessum efnum og þau eru meira í snertingu við ryk og jarðveg utandyra en fullorðnir,“ segir Þórhallur. „Upptaka þessara efna er því oft hlutfallslega meiri hjá börnum en fullorðnum.“ - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×