Innlent

Íraksrannsókn ljúki fyrir 1. desember

Árni Þór Sigurðsson
Árni Þór Sigurðsson
Utanríkismálanefnd telur nauðsynlegt að rannsóknarnefnd um stuðning íslenskra stjórnvalda við Íraksstríðið fari yfir 25 skjöl í utanríkisráðuneytinu sem varða málið og leynd hvílir yfir. 67 af 92 skjölum ráðuneytisins um Íraksmálið voru birt opinberlega í nóvember. Leyndin á skjölunum 25 er til komin þar sem þau varða samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir eða eru vinnuskjöl.

 

Telur utanríkismálanefnd að skjölin geti gefið skýra heildarmynd af aðdraganda „hinnar afdrifaríku ákvörðunar um stuðning við Íraksstríðið“. Vill hún jafnframt að skjölin verði gerð opinber í framhaldinu.

 

Nefndin lauk nýverið umfjöllun um þingsályktunartillögu um kosningu rannsóknarnefndar um aðdraganda ákvörðunar um stuðninginn við innrásina í Írak 2003. Segir í áliti hennar að hún taki undir mikilvægi þess að Alþingi láti rannsaka hvernig staðið var að málinu.

Nefndin leggur til nokkrar tæknilegar breytingar á tillögunni, meðal annars þá að rannsókninni ljúki fyrir 1. desember í stað 1. júní.

 

Formaður utanríkismálanefndar, Árni Þór Sigurðsson, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar.

 

Við afgreiðslu nefndarinnar voru fulltrúar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins fjarverandi.

- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×