Skoðun

Nei mun bitna á sjálfum okkur

Vilhjálmur Árnason skrifar
Það var sorglegt að horfa upp á manninn á Álftanesi eyðileggja húsið sitt hér um árið til að ná sér niður á bönkunum. Ég fæ ekki varist þeirri tilhugsun að íslenska þjóðin, illa haldin af sorg og reiði eftir bankahrunið, muni með svipuðum hætti eyðileggja fyrir sjálfri sér, hafni hún Icesave-samningnum. Gremja landsmanna er skiljanleg og nú ætla margir að finna þessum tilfinningum útrás með því að segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslu. En haldi menn að þar með bjóði þeir fjármálamönnum birginn er það misskilningur. Nei-ið er miklu líklegra til þess að stórauka vanda þjóðarinnar, auk þess sem það er siðferðilega óverjandi. Frá siðfræðilegu sjónarmiði virðist mér Icesave-málið vera einfalt. Með neyðarlögunum var innistæðueigendum Landsbankans mismunað í grófum dráttum þannig að Íslendingar fengu allt sitt bætt, útlendingar ekkert. Samningurinn sem nú er kosið um dreifir byrðinni af því hörmulega máli á sanngjarnan hátt milli þeirra þriggja þjóða sem hlut eiga að því (auk þess sem eignir gamla Landsbankans munu líklega duga fyrir nær öllum hlut Íslendinga). Segjum því já við samningnum.




Skoðun

Skoðun

Á­kall um kjark

Guðbjörg Pálsdóttir,Kolbrún Halldórsdóttir,Steinunn Þórðardóttir,Svana Helen Björnsdóttir skrifar

Sjá meira


×