Innlent

Lífeyrissjóðsstjóri átti rétt á að fá gögn

Mál Fjármálaeftirlitsins og Ingólfs Guðmundssonar ætti að vera endurskoðað, að mati umboðsmanns Alþingis. fréttablaðið/gva
Mál Fjármálaeftirlitsins og Ingólfs Guðmundssonar ætti að vera endurskoðað, að mati umboðsmanns Alþingis. fréttablaðið/gva
Synjun Fjármálaeftirlitsins (FME) um afhendingu umbeðinna gagna til Ingólfs Guðmundssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga, skorti lagastoð að mati umboðsmanns Alþingis.

Ingólfur fór fram á að fá gögn í stjórnsýslumáli er laut að hæfi hans til þess að gegna stöðu framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga, en var synjað. Umboðsmaður mælist til þess að mál Ingólfs verði tekið upp að nýju innan FME.

Ingólfur var ráðinn framkvæmdastjóri sjóðsins í febrúar 2010. FME sendi sjóðnum bréf í maí þar sem gerðar voru athugasemdir við ráðningu Ingólfs. Í bréfinu stóð að verið væri að skoða hæfi framkvæmdastjórans til þess að gegna stöðunni, vegna starfa hans sem stjórnarformanns Íslenska lífeyrissjóðsins. Niðurstaða FME var sú að Ingólfur var ekki hæfur og í framhaldi af því lét hann af störfum.

„Ég var mjög ósáttur við afgreiðslu Fjármálaeftirlitsins og höfðaði mál gegn því í desember. Ég tel að þeir hafi gróflega misnotað valdheimildir sínar," segir Ingólfur. „Ég tel að [niðurstaða umboðsmanns] sýni vinnubrögðin í málinu í hnotskurn."

Fjallað verður um mál Ingólfs innan FME 20. apríl næstkomandi. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×