Nýr liðsmaður Júlía Margrét Alexandersdóttir skrifar 18. apríl 2011 06:00 Síðasta vika hefur verið þýðingarmikil fyrir geðsjúklinga um allan heim. Velska leikkonan Catherine Zeta-Jones sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis að hún hefði látið leggja sig inn á geðdeild þar sem hún er meðhöndluð við geðhvarfasýki. Geðlækna- og geðhjálparsamtök í Bretlandi hafa fagnað yfirlýsingu leikkonunnar og segja hana tímamótaviðburð sem gagnast muni geðsjúklingum í baráttunni fyrir tilverurétti sínum. Lóðin sem Catherine Zeta leggur þar á eru einkum tvö. Hún nýtur þess að vera dáð leikkona, sérstaklega eru það Bretarnir sem sjá ekki sólina fyrir henni, og á þannig góða möguleika á að vekja athygli á geðsjúkdómum hjá stærri hóp en nokkur kostuð herferð myndi áorka. Í ofanálag gengur leikkonan hreint til verks og án sýnilegs hvata og það er það sem hefur gert bresku pressuna stúmm. Frægir geðveikir einstaklingar koma nefnilega frekar með yfirlýsingarnar tilneyddir, þegar þeir sjá sér ekki annað fært en að gangast við geðtruflun eftir að hegðun þeirra ratar í heimspressuna. Allur hinn fjöldinn, sem gengst daglega undir læknismeðferð við geðsjúkdómum en skandalíserar ekki endilega, hefur ekki verið jafn duglegur að láta í sér heyra. Sú þögn hefur þjónustað staðalímyndina um geðsjúklinga og styrkt þá ranghugmynd að hegðun þeirra sé sturluð, í besta falli hneykslanlegt en gott myndefni ef svo ber undir, í versta falli hættuleg. En eins og oft hefur verið bent á er það afar lítið hlutfall geðveikra sem hagar sér eins og „vitleysingar". Catherine Zeta-Jones hafði í raun enga ástæðu til að brennimerkja sig með geðsjúklinga-lógóinu en gerði það samt. Það er ekki einu sinni víst að henni muni finnast þetta góð hugmynd þegar frá líður. Hún vinnur málstaðnum gagn en gengur ekki að óbreyttum ferli vísum. Þjóðþekktur einstaklingur sagði mér eitt sinn að hann hefði aldrei séð eins mikið eftir neinu og að koma fram með það að hann væri veikur á geði. Í okkar rétthugsandi, og svo ég noti orð í eftirlæti; velmeinandi þjóðfélagi, erum við nefnilega alveg til í að horfa á og kinka fallega kolli til en ekki snerta. Vissulega leita fjölmiðlar ytra að sturluðu augnabliki Catherine Zeta-Jones – og hafa þrætt öll nýjustu myndskeið þar sem leikkonunni bregður fyrir. Hugartengsl milli þess að haga sér kúkú og vera geðsjúklingur eru enn svo sterk að margir eru ekki í rónni fyrr en þeir hafa þefað uppi þó ekki sé nema eina geggjaða stiklu af Catherine. Því eftir allt er vandasamara að fjalla um „venjulega" geðsjúklinginn en þann sem leysir niður um sig buxurnar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Júlía Margrét Alexandersdóttir Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun
Síðasta vika hefur verið þýðingarmikil fyrir geðsjúklinga um allan heim. Velska leikkonan Catherine Zeta-Jones sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis að hún hefði látið leggja sig inn á geðdeild þar sem hún er meðhöndluð við geðhvarfasýki. Geðlækna- og geðhjálparsamtök í Bretlandi hafa fagnað yfirlýsingu leikkonunnar og segja hana tímamótaviðburð sem gagnast muni geðsjúklingum í baráttunni fyrir tilverurétti sínum. Lóðin sem Catherine Zeta leggur þar á eru einkum tvö. Hún nýtur þess að vera dáð leikkona, sérstaklega eru það Bretarnir sem sjá ekki sólina fyrir henni, og á þannig góða möguleika á að vekja athygli á geðsjúkdómum hjá stærri hóp en nokkur kostuð herferð myndi áorka. Í ofanálag gengur leikkonan hreint til verks og án sýnilegs hvata og það er það sem hefur gert bresku pressuna stúmm. Frægir geðveikir einstaklingar koma nefnilega frekar með yfirlýsingarnar tilneyddir, þegar þeir sjá sér ekki annað fært en að gangast við geðtruflun eftir að hegðun þeirra ratar í heimspressuna. Allur hinn fjöldinn, sem gengst daglega undir læknismeðferð við geðsjúkdómum en skandalíserar ekki endilega, hefur ekki verið jafn duglegur að láta í sér heyra. Sú þögn hefur þjónustað staðalímyndina um geðsjúklinga og styrkt þá ranghugmynd að hegðun þeirra sé sturluð, í besta falli hneykslanlegt en gott myndefni ef svo ber undir, í versta falli hættuleg. En eins og oft hefur verið bent á er það afar lítið hlutfall geðveikra sem hagar sér eins og „vitleysingar". Catherine Zeta-Jones hafði í raun enga ástæðu til að brennimerkja sig með geðsjúklinga-lógóinu en gerði það samt. Það er ekki einu sinni víst að henni muni finnast þetta góð hugmynd þegar frá líður. Hún vinnur málstaðnum gagn en gengur ekki að óbreyttum ferli vísum. Þjóðþekktur einstaklingur sagði mér eitt sinn að hann hefði aldrei séð eins mikið eftir neinu og að koma fram með það að hann væri veikur á geði. Í okkar rétthugsandi, og svo ég noti orð í eftirlæti; velmeinandi þjóðfélagi, erum við nefnilega alveg til í að horfa á og kinka fallega kolli til en ekki snerta. Vissulega leita fjölmiðlar ytra að sturluðu augnabliki Catherine Zeta-Jones – og hafa þrætt öll nýjustu myndskeið þar sem leikkonunni bregður fyrir. Hugartengsl milli þess að haga sér kúkú og vera geðsjúklingur eru enn svo sterk að margir eru ekki í rónni fyrr en þeir hafa þefað uppi þó ekki sé nema eina geggjaða stiklu af Catherine. Því eftir allt er vandasamara að fjalla um „venjulega" geðsjúklinginn en þann sem leysir niður um sig buxurnar.