Skoðun

Tæknin hjálpar les­blindum

Guðmundur S. Johnsen skrifar

Félag lesblindra á Íslandi hefur lagt sig eftir að kynna nýjar lausnir sem nýtast lesblindum og þeim sem eiga við lestrarörðugleika að etja. Það er reynsla félagsins að mikilvægt sé að fylgjast með tækninýjungum og kynna þær fyrir þeim sem glíma við lesblindu en þó ekki síður stjórnendum í skólakerfinu. Óhætt er að segja að það sé nánast ótrúlegt hve hraðar breytingar hafa verið á búnaði sem getur nýst þeim sem eiga við lestrarerfiðleika að etja. Snjallsímavæðing og tengd forrit skipta miklu en einnig sérhæfður búnaður sem hannaður hefur verið til að þjónusta lesblinda.

Nú er svo komið að það er mjög einfalt að hlusta á allan texta á skjá og um leið er unnt að tala við tækið. Raddgreiningabúnaður studdur af gervigreind færir lesblindum byltingu og stöðugt erum við að sjá fleiri möguleika, kjósi stjórnendur í skólakerfinu að grípa þá. Félag lesblindra hefur hvatt og stutt fólk til að nota alla þá tækni sem býðst. Það er nefnilega þannig að það helst í hendur, að því fleiri notendur, því betri virkni. Þeir sem komast upp á lagið með nýja tækni verða henni fljótt vanir sem svo auðveldar notkunina.

Félag lesblindra hefur undanfarið unnið að því að kynna sérhæfð hjálpargögn fyrir stjórnendum í skólakerfinu enda nauðsynleg til að hjálpa börnunum með lesblindu. Við höfum fundað með skólum landsins og kynnt nýja lausn sem mun stórbæta aðgengi barna með lesblindu að námsefninu. Nú stendur yfir vinna hjá ReadSpeaker TextAid við að smíða nýjan talgervil en sú vinna er langt komin. Unnið er að því að fínstilla hann svo hann verði sem líkastur lifandi rödd. Við hjá félaginu höfum miklar væntingar til þess að þessi búnaður nýtist vel en ReadSpeaker hefur getið sér gott orð vegna íslensku vefþulunnar en mikill fjöldi vefja nýtir sér hana.

Lesblinda - útbreitt vandamál

Það er mikilvægt að hafa hugfast að einn af hverjum 10 nemendum í efri bekkjum íslenskra grunnskóla segir að lesblinda hafi mikil eða mjög mikil áhrif á frammistöðu þeirra í námi. Þetta er niðurstaða viðamikillar könnunar meðal ungmenna í 8., 9. eða 10. bekk grunnskóla sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir Félag lesblindra á Íslandi (FLÍ) árið 2023.

Niðurstöður könnunar ættu að opna augu fólks fyrir þeim vanda sem við er að glíma. Alls hafði 21% svarenda á aldrinum 18 til 24 ára, sem tóku þátt í könnun rannsóknarinnar, verið greind með lesblindu. Nokkuð fleiri karlar en konur höfðu greinst með lesblindu og algengast var að svarendur hefðu fengið greininguna á aldrinum 10 til 15 ára eða 21,9%. Næstflestir voru greindir fyrir 10 ára aldur eða 14,9% og fæstir þátttakenda með lesblindu höfðu greinst eftir 15 ára aldur eða 4,6%.

Skýr tengsl milli lesblindu og kvíða

Könnunin meðal ungmenna á aldrinum 18 til 24 ára leiddi í ljós skýr tengsl á milli lesblindu og kvíða. Kvíðinn mældist þó mismikill eftir því á hvaða aldri barnið eða ungmennið hafði greinst. Þá mældust þeir þátttakendur sem fengu lesblindugreiningu eftir 10 ára aldur með meiri kvíða að meðaltali en þau sem ekki voru með lesblindugreiningu. Á sama tíma leiddi könnunin í ljós að þeir þátttakendur sem áttu auðvelt með að fá aðstoð með heimanám mældust með minni kvíða en þeir sem fengu takmarkaða eða enga aðstoð heima fyrir.

Það var auðvitað sláandi niðurstaða en ekki óvænt að birtingarmyndir kvíða hjá þátttakendum í rannsókninni voru aðallega tengdar skólakerfinu. Þannig benda niðurstöður rannsóknar FLÍ til þess að skólamenningin hafi ekki veitt lesblindum börnum nægilegt rými til þátttöku og þroska í námi til jafns við önnur börn. Brýnt er að vinna bug á því.

Höfundur er formaður Félags lesblindra á Íslandi.




Skoðun

Sjá meira


×