Innlent

Formaður ÖBÍ segir erfiðara að komast á bætur

Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Formaður Öryrkjabandalags Íslands segir að Tryggingastofnun haldi fastar um budduna þegar kemur að greiðslum til öryrkja og mun erfiðara sé að komast á bætur núna áður. Öryrkjum fjölgaði mun hægar í fyrra en árin á undan.

Öryrkjum fjölgaði um tvö hundruð á síðasta ári, eða um 1,4 prósent og er það mun hægari fjölgun en árin á undan, en öryrkjum hefur fjölgað um fjögur til átta hundruð á ári um langt skeið, að því er fram kemur í Fréttablaðinu.

Fjölgun í fyrra er þvert á allar spár um mikla fjölgun öryrkja í kjölfar efnahagshrunsins og aukins atvinnuleysis. Skýringuna má finna í aðgerðum stjórnvalda undanfarin ár, að sögn Sigríðar Lillýjar Baldursdóttur, forstjóra Tryggingastofnunar. Stjórnvöld hafi gripið til margvíslegra úrræða til þess að tryggja betur endurhæfingu og virkni í kjölfar atvinnumissis og heilsubrests. Fjöldi öryrkja var 14.714 hér á landi í desember síðastliðnum. Konur voru í meirihluta, eða 9.025.

Sigríður Lillý segir að hjá Tryggingastofnun hafi öll vinnubrögð verið endurskoðuð varðandi endurhæfingarmat, virk endurhæfingarúrræði og örorkumat að fengnum lagabreytingum sem gerði stofnuninni kleift.

Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, segir að mun erfiðara sé að komast á bætur nú en áður. Ríkið haldi mun fastar utan um öll útgjöld til þessa málaflokks. „Það er mjög erfitt að komast inn á örorkulífeyri. Ég held að haldið fast utan um budduna hjá Tryggingastofnun og það er allt orðið þrengra og erfiðara. Það er spurning hvort það sé ekki fólk þarna úti sem þyrfti að vera (á bótum) en er það ekki. Ég hef grun um það."

Guðmundur segir að fjölgun þeirra sem þurfi að sækja sér aðstoð til hjálparstofnana haldist hugsanlega í hendur við að færri njóti örorkubóta. Guðmundur segir að erfitt sé fyrir öryrkja að sækja bótaflokka sem þeir áttu áður rétt á. „Það er svona verið að þrengja allar túlkanir mjög," segir Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×