Innlent

LÍÚ segir alls ekki farið á svig við kjarasamningana

Friðrik J. Arngrímsson. Útvegsmenn eru óánægðir með þá fullyrðingu Jóns Steinssonar hagfræðings að ýmislegt bendi til að fiskur sé seldur á undirverði til að fara á svig við kjarasamninga sem Fréttablaðið greindi frá í gær.
Friðrik J. Arngrímsson. Útvegsmenn eru óánægðir með þá fullyrðingu Jóns Steinssonar hagfræðings að ýmislegt bendi til að fiskur sé seldur á undirverði til að fara á svig við kjarasamninga sem Fréttablaðið greindi frá í gær.
Þorskur Frá því að viðmiðunarverð var tekið upp við sölu fisks til eigin vinnslu árið 2001 hefur verð þorsks sveiflast á bilinu 87 til 99 prósent af ákveðnu hlutfalli. Viðmiðunarverðið hefur á tímabilinu verið 92 til 95 prósent. Forsvarsmenn LÍÚ segja um mjög gegnsætt og skýrt ferli að ræða. Fréttablaðið/stefán
„Í hverjum einasta mánuði hittast sjómenn og útvegsmenn og fara yfir þessi verð. Verðlagsstofa skiptaverðs fylgist auk þess með þeim. Ef grunur vaknar um að ekki sé verið að fylgja reglum um viðmiðunarverð þá er hægt að vísa því til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna. Þar hefur ekki fallið dómur í langan tíma,“ segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ).

 

Þannig svarar hann fullyrðingum Jóns Steinssonar, dósents í hagfræði við Columbia-háskóla í Bandaríkjunum, sem segir ýmislegt benda til að útgerðin selji fisk á undirverði til tengdra aðila til að lækka hlut sjómanna samkvæmt kjarasamningum.

„Ef við tökum þorskinn sem dæmi þá höfum við haft tólf mánaða viðmið um þessi verð frá árinu 2001 sem við eigum að reyna að liggja sem næst. Viðmiðið er vegið meðaltal af verði á fiskmarkaði og því sem borgað hefur verið þegar eigin aðili stundar vinnslu. Hið raunverulega verð hefur sveiflast í kringum viðmiðið eins og eðlilegt er en það er augljóst að því hefur ekki verið haldið kerfisbundið niðri,“ segir Friðrik.

 

Jón hefur skoðað samband fiskverðs og framlegðar í vinnslu á Íslandi. Hann telur sambandið óeðlilega mikið sem bendi til að fiskur hafi verið seldur á undirverði. Þá sé þetta sennilega meira stundað í uppsjávarfiski en bolfiski þar sem virkari fiskmarkaður sé til staðar í bolfiski og þar með augljósari viðmiðunarverð.

 

Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur LÍÚ, segir hins vegar margt geta valdið því að framlegð í vinnslu sé breytileg milli ára. Þau ár sem framlegðin hafi verið sérstaklega mikil hafi sama þróun verið hjá þeim fiskvinnslum sem hafa enga tengda aðila til að kaupa fisk af. Það bendi til þess að Jón hafi rangt fyrir sér.

 

„Það verð sem miðað er við þegar útgerðin greiðir sjómönnum laun í þeim tilvikum þar sem fiskurinn kemur frá eigin útgerð er yfirleitt í kringum 75 til 80 prósent af verði á fiskmarkaði en munurinn skýrist af sölukostnaði. Svona eru bara þeir kjarasamningar sem til eru og það er bara ekki rétt að farið hafi verið á svig við þá,“ segir Friðrik enn fremur.

 

Þá sé mjög mikilvægt að hafa það í huga að ef grunur vaknar um að menn séu ekki að fylgja þessum reglum þá hafa sjómenn úrræði til að bregðast við því. „Þetta er mikil ásökun og alvarleg en hún á ekki við rök að styðjast. Auðvitað eru alltaf einhverjir svartir sauðir í greininni eins og alls staðar en þessi fullyrðing stenst ekki skoðun,“ segir Friðrik. magnusl@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×