Innlent

Icelandair aðalstyrktaraðili Hörpu

Við undirritun samningsins.
Við undirritun samningsins.
Harpa og Icelandair hafa undirritað samstarfssamning til tveggja ára um að fjölga ráðstefnu- og menningarferðamönnum til landsins og vekja athygli á Íslandi sem spennandi alþjóðlegum áfangastað. Icelandair verður aðalstyrktaraðili Hörpu næstu tvö árin og mun styðja við fjölbreytt tónlistarstarf og ráðstefnuhald í húsinu.

Einnig mun verða náið samstarf með stjórnendum beggja aðila varðandi markaðssetningu og kynningarstarf erlendis.  Fyrir hönd Hörpu voru það Steinunn Birna Ragnarsdóttir tónlistarstjóri og Höskuldur Ásgeirsson framkvæmdastjóri sem undirrituðu samninginn og frá Icelandair voru það þeir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri og Helgi Már Björgvinsson framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair.

Helgi Már segir að Icelandair leggi áherslu á að nýta það tækifæri sem felst í Hörpu við að ná til nýrra hópa ferðamanna. „Þetta gæta bæði verið svokallaðir menningarferðamenn sem koma vegna tónlistarinnar. En ekki síður erlendis gestir sem sækja munu ráðstefnur og fundi í Hörpu. Harpa mun bæði breyta ásýnd Reykjavíkur og draga að sér mikla athygli erlendra fjölmiðla á næstunni. Hvort sem horft er frá sjónarhóli hljómburðar eða byggingarlistar, þá er hér um að ræða hús á heimsmælikvarða og Harpa færir okkur ný tækifæri til að ná í verðmæta ferðamenn," segir Helgi Már.

Steinunn Birna segist vera ánægð með samninginn. „Hann er afar umfangsmikill og tengist mörgum verkefnum sem eru framundan í húsinu á næstu tveimur árum og verður á margan hátt mikilvægur fyrir menningarstarf hússins Vaxandi skilningur atvinnulífsins á mikilvægi listarinnar og skapandi greina er fagnaðarefni. Ég tel ákaflega mikilvægt að stærstu aðilarnir í ferðaþjónustu á Íslandi, og í ferðaþjónustu almennt, vinni saman,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×