Erlent

Vill ljúka umbótum fyrir kosningar

Lars Lökke Rasmussen Forsætisráðherra Danmerkur segist ekki hafa hugsað sér að boða til kosninga.
gettyimages/afp
Lars Lökke Rasmussen Forsætisráðherra Danmerkur segist ekki hafa hugsað sér að boða til kosninga. gettyimages/afp
Lars Lökke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, segist ekki ætla að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga. Síðustu daga hefur heyrst sterkur orðrómur þess efnis en á sínum vikulega blaðamannafundi í gær sagði Lökke að slíkt væri honum ekki efst í huga.

Hægriflokkarnir sem eru nú við völd hafa verið að rétta úr kútnum í skoðanakönnunum undanfarið þar sem áður rífleg forysta vinstriflokkanna hefur dregist jafnt og þétt saman. Því telja margir stjórnmálaskýrendur að Lökke nýti sér tækifærið og blási jafnvel til kosninga í þessari viku.

„Í Danmörku er kosið á fjögurra ára fresti og yfirstandandi kjörtímabili lýkur í nóvember. Það er sá tímarammi sem við höfum til afnota og margt liggur fyrir okkur,“ sagði Lökke á fundinum.

Hann sagði að mörg stórmál þyrfti að klára áður en gengið yrði til kosninga. Þar á meðal væri frumvarp um stefnumótun til ársins 2020 þar sem gert væri ráð fyrir miklum breytingum á eftirlaunakerfinu. Meðal annars verður eftirlaunaaldur hækkaður í þrepum en auk þess eru boðaðar breytingar á skattakerfi, námsstyrkjum og þar fram eftir götunum.

Gert er ráð fyrir að spara um 47 milljarða danskra króna á tímabilinu til að koma jafnvægi á ríkisfjármálin.

Lökke vildi þó ekki útiloka neitt þar sem hann sagði að mögulega yrði nauðsynlegt að boða til kosninga eftir að umbótafrumvarpinu yrði komið í gegn.- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×