Innlent

Biskupinn fékk bréf til andmæla

karl sigurbjörnsson
karl sigurbjörnsson
Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, var einn þeirra sem fengu sent bréf til andmæla frá rannsóknarnefnd þjóðkirkjunnar um síðustu mánaðamót. Þetta fékkst staðfest hjá Biskupsstofu í gær.

Rannsóknarnefndin sendi út bréf til þeirra sem hún telur að hafi gerst sekir um þöggun, vanrækslu eða mistök í starfi þegar konur leituðu aðstoðar kirkjunnar vegna meintra kynferðisbrota Ólafs Skúlasonar, fyrrum biskups.

Bréfin voru send út laust fyrir síðustu mánaðamót og hafa þeir sem þau fengu um tvær vikur til þess að svara þeim. Hugsanlegt er að nefndin breyti niðurstöðum sínum með hliðsjón af andmælunum.

Ekki var hægt að fá samband við biskup þegar Fréttablaðið ræddi við Biskupsstofu. Ragnhildur Benediktsdóttir skrifstofustjóri segir málið alfarið vera í höndum rannsóknarnefndarinnar og ekki tengt stofnuninni á nokkurn hátt.

Hún staðfestir þó að biskupinn hafi verið einn þeirra sem fengu sent bréf til andmæla.

„Já, hann fékk bréf eins og allir aðrir. Það er verið að vinna í að svara því og því er að ljúka,“ segir hún.

Ekki hefur fengist uppgefið hversu mörg bréf voru send út. Það eina sem hefur fengist staðfest er að bréfin voru fleiri en eitt og fáeinir einstaklingar hafa svarað nú þegar.

Í samtali við Fréttablaðið á laugardaginn sagði Róbert R. Spanó, formaður nefndarinnar, að unnið verði að skýrslugerð þegar öll svör hafa borist. Nefndin stefnir að því að ljúka störfum fyrir miðjan næsta mánuð.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×