Innlent

Greiði tugmilljóna kaupauka

landsbankinn Landsbankanum bar aðeins að selja manninum hlutabréf, en ekki greiða honum eingreiðslu, að mati dómsins. fréttablaðið/valli
landsbankinn Landsbankanum bar aðeins að selja manninum hlutabréf, en ekki greiða honum eingreiðslu, að mati dómsins. fréttablaðið/valli
Starfsmaður í Landsbankanum á að endurgreiða slitastjórn bankans tæplega níutíu milljónir króna samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjaness.

Starfsmaðurinn, Jón Þór Gunnarsson, var forstöðumaður á fyrirtækjasviði frá árinu 2004. Það ár gerði hann kaupréttarsamning við bankann sem fól í sér að hann fékk rétt til að kaupa fimm milljónir hluta í bankanum á genginu sjö. Áunninn kaupréttur átti að safnast upp á næstu árum og kauprétturinn verða virkur 1. desember 2007.

24. september var svo gert samkomulag við hann um eingreiðslu á kaupauka, og kauprétturinn þannig gerður upp. Þessum samningi vildi slitastjórnin fá slitið.

Stefndi sagðist hafa gengið eftir því ítrekað við bankann að kaupréttarsamningurinn yrði gerður upp við hann frá því í desember 2007. Það hafi gengið svo langt að hann hafi ámálgað það að leita til dómstóla vegna þess. Greiðslan hafi verið hluti af launakjörum hans.

Í dóminum kemur fram að Landsbankinn hafi aðeins verið skuldbundinn til að selja Jóni Þóri hlutabréf, en ekki greiða honum eingreiðslu. Héraðsdómur féllst á kröfur slitastjórnarinnar og dæmdi hann til að greiða 89,1 milljón króna auk dráttarvaxta.

- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×