Innlent

37 umsóknir hafa borist um sérfræðiaðstoð

Alls höfðu 37 umsóknir um sérfræðiaðstoð verið sendar stofnunum Evrópusambandsins (ESB) í lok mars, frá því að svokölluð TAIEX-aðstoð var gerð Íslendingum aðgengileg síðasta sumar. Umsóknirnar fela flestar í sér aðstoð við upplýsingaöflun og kynningu á regluverki ESB.

Þetta kom fram á þingi á miðvikudag í svari Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra við fyrirspurn Birgis Ármannssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, en þar kom fram að þegar hefðu 25 TAIEX-umsóknir verið samþykktar en þremur verið hafnað.

TAIEX-aðstoð, sem er hluti af stuðningi ESB við umsóknarríki, felur ekki í sér beina fjárhagslega styrki heldur aðstoð í formi mannauðs. Þar er til dæmis um að ræða heimsóknir frá sérfræðingum á ákveðnum sviðum innan ESB eða ferð til aðildarríkis eða á ráðstefnu erlendis.

Þegar hefur komið fram að Ísland mun hljóta alls 28 milljónir evra í IPA-styrki frá ESB fram til ársins 2013, en í svari Össurar segir hann að ekki liggi fyrir áætlanir um umfang TAIEX-stuðnings.

Þó hafa þrjár milljónir evra verið skuldbundnar til tveggja verkefna hjá Þýðingarmiðstöð utanríkisráðuneytisins og Hagstofu vegna vinnslu hagtalna.- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×