Innlent

Gæti bætt lánshæfismatið

Jón Bjarki Bentsson
Jón Bjarki Bentsson
„Það er fylgni á milli þess þegar Seðlabankinn kaupir aftur erlend skuldabréf ríkissjóðs og þess að álagið lækkar," segir Jón Bjarki Bentsson, sérfræðingur á greiningardeild Íslandsbanka.

Skuldatryggingarálag á ríkissjóð hefur lækkað jafnt og þétt frá því að Seðlabankinn keypti evrubréf fyrir 57 milljarða króna í síðustu viku. Það stendur nú í 214 stigum og hefur ekki verið lægra síðan um miðjan júní fyrir tæpum þremur árum. Hæst fór álagið í tæp 1.500 stig í bankahruninu 10. október 2008.

Álagið nú merkir að það kostar 2,14 prósent af nafnvirði skuldabréfa til fimm ára að tryggja þau gegn greiðslufalli. Þegar verst lét var álagið um fimmtán prósent.

Skuldabréfin sem Seðlabankinn keypti að hluta eru á gjalddaga á þessu ári og því næsta. Þau voru upphaflega jafnvirði 204 milljarða króna að nafnvirði. Bankinn hefur verið að kaupa bréfin jafnt og þétt. Eftir síðustu kaup standa eftir bréf upp á 73 milljarða króna.

Í Markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa á dögunum sagði að kaupin ættu jafnframt að hafa jákvæð áhrif hjá matsfyrirtækjum þegar þau endurskoðuðu næst lánshæfismat Íslands. Eitt matsfyrirtæki hefur sett lánshæfismatið í ruslflokk og hin tvö eru með það einu haki þar fyrir ofan hann.- jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×