Innlent

Sauðfjárbændur græða á ESB-aðild

Líkur eru á að afkoma sauðfjárbænda myndi batna til muna kæmi til Evrópusambandsaðildar Íslands. Þetta kemur fram í bakgrunnsskýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann sumarið 2009 fyrir nefnd stjórnvalda og hagsmunaaðila.

Í skýrslunni var leitast við að leggja mat á stöðu íslenskra búa innan ESB miðað við þá lausn sem Finnland samdi um við aðild að sambandinu.

Í skýrslunni kemur fram að við aðild og gefnar forsendur yrði líkast til engin breyting á verði dilka- eða nautakjöts til neytenda, en líklegt væri að mjólk myndi lækka í verði um 56 prósent, svínakjöt um 35 prósent, egg um 59 prósent og kjúklingur um 73 prósent.

Við aðild myndu nær allar hömlur á út- og innflutningi landbúnaðarafurða falla niður hvað ríki ESB varðaði. Verðfall kjúklingakjöts myndi því eflaust valda samdrætti í neyslu kindakjöts hér á landi. „Ekki er hins vegar ástæða til að ætla að samdráttur leiði til lækkunar á verði kindakjöts, enda eru útflutningsmöguleikar íslenskra sauðfjárbænda umtalsverðir til lengri tíma litið eins og þróun undangenginna ára hefur sýnt,“ segir í skýrslunni. „Samdráttur í sölu innanlands myndi því að öllum líkindum leiða til aukins útflutnings en ekki verðlækkana.“

Í bakgrunnsskýrslunni kemur einnig fram að breyting á styrkjaumhverfi sem yrði við aðild Íslands að ESB í „finnsku samningsumhverfi landbúnaðarmála“ myndi engu breyta um afkomu sauðfjárbænda. „Norðurslóðastuðningur kæmi þar til viðbótar og myndi gera afkomu þeirra umtalsvert betri en nú er,“ segir þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×