Innlent

Hefði viljað sjá hærra mat

Mat Fitch er viðurkenning á að Ísland sé að rétta úr kútnum, segir Steingrímur sem á myndinni er í húsakynnum AGS. Fréttablaðið/ÓKÁ
Mat Fitch er viðurkenning á að Ísland sé að rétta úr kútnum, segir Steingrímur sem á myndinni er í húsakynnum AGS. Fréttablaðið/ÓKÁ
„Þetta er ákveðinn varnarsigur og jákvætt svo langt sem það nær. Það hefði verið betra að hækka okkur. En þetta styður við það mat manna að Ísland sé að rétta úr kútnum,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra um nýtt mat Fitch um lánshæfishorfur ríkissjóðs sem birt var í gær.

Í matinu er lánshæfishorfum breytt úr neikvæðum í stöðugar. Lánshæfismat til langs tíma er enn óbreytt í ruslflokki.

Í mati Fitch kemur fram að niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave-samkomulagið fyrir rúmum mánuði muni ekki hafa neikvæð áhrif á efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og stjórnvalda. Þá er talið til tekna að stjórnvöld eru fullviss um að þrotabú gamla Landsbankans geti staðið undir í það minnsta níutíu prósentum af Icesave-kröfunum.

Fulltrúar stjórnvalda og Seðlabankans funduðu með matsfyrirtækjunum í kringum vorfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í síðasta mánuði.

Steingrímur segir þá vinnu vera að skila sér nú. „Þetta er ákveðin uppskera af því puði.“

Þetta er annað matið á lánshæfi ríkissjóðs eftir að Icesave-samkomulagið var fellt fyrir rúmum mánuði. Moody‘s birti sitt mat seint í síðasta mánuði en Standard & Poor‘s á enn eftir að birta sitt. Ekki liggur fyrir hvenær von er á því, að sögn Steingríms. - jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×